145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

ákvæði um greiðslu sérstakrar framfærsluuppbótar í samræmi við búsetu hér á landi.

408. mál
[15:55]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef áður, undir þessum dagskrárlið, undrað mig á þeim svörum ráðherra sem koma fram. Svörin felast yfirleitt í því að ráðherra heldur langa ræðu og endurtekur ræðu fyrirspyrjanda sem ég held að sé óþarft, allavega fyrir okkur sem sitjum hér inni og líka út af þingtíðindunum, það má lesa þetta saman þar.

En mér skildist þó á ráðherranum að svarið við spurningunni sem lögð var fyrir hana væri nei. Nefndin sem hefur verið að störfum leggur ekki til neinar breytingar hvað varðar þennan hóp, sem vissulega þarf að taka á. Þetta er vandamál sem er uppi. Það er alveg ljóst að ekki er hægt að vísa fólki á félagsþjónustu sveitarfélaganna. Það er bara eins og í gamla daga að vísa fólki á sveit. Það þarf að sjá fyrir þessu fólki líka og ég skil það þannig að ráðherrann ætli ekki að gera neinar tillögur í þessu efni fyrst að nefndin gerði það ekki.