145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

ákvæði um greiðslu sérstakrar framfærsluuppbótar í samræmi við búsetu hér á landi.

408. mál
[15:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég skildi svar hæstv. ráðherra einnig þannig að í raun væri hún að segja nei, að í hennar huga komi ekki til greina að endurskoða 3. mgr. 15. gr. reglugerðar um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri.

Það eru mér vonbrigði því að þó svo að það sé tæknilega rétt, sem hæstv. ráðherra segir, að mögulega gæti hingað komið fólk frá löndum þar sem er verra almannatryggingakerfi þá er kerfið sem við búum við í dag þannig að Íslendingar sem búa á Íslandi búa við alveg rosalega kröpp kjör, meðal annars vegna þessa reglugerðarákvæðis.

Ég hef verulegar áhyggjur af þessum hópi og tel algjörlega nauðsynlegt að við hugum að því hvernig við getum bætt stöðu hans í samfélaginu. Það er að mínu mati einfaldlega verulega brogað almannatryggingakerfi sem er þannig úr garði gert að hópur fólks í samfélaginu dæmist til að búa við kjör sem eru langt undir öllum viðmiðum um framfærslu.

Í lögum um félagslega aðstoð segir að bætur félagslegrar aðstoðar greiðist eingöngu þeim sem eru með lögheimili hér á landi. Ég vil hins vegar ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni að það er ekkert í þessum lögum um að viðkomandi hafi þurft að hafa hér búsetu í 40 ár (Forseti hringir.) til að eiga rétt á þessum bótum.

Ég tel einfaldlega að við hér á Alþingi verðum að einhenda okkur í þá vinnu að laga stöðu þessa fólks. (Forseti hringir.) Það gengur ekki að hér sé hópur sem sé með kerfislægum hætti þannig undirskipaður að hann verði að búa við fátækt.