145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

þjónusta við þá sem þarfnast langtímameðferðar í öndunarvél um barkarennu.

380. mál
[16:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar fjórar sem hún gerði hér grein fyrir. Ég vil tiltaka það fyrst af öllu varðandi fyrstu spurninguna, hvort mögulegt sé að bjóða sjúklingum sem þurfa langtímameðferð í öndunarvél um barkarennu sólarhringsmeðferð á heimili þeirra, að til að tryggja öryggi sjúklings sem þarf langtímameðferð í öndunarvél þarf sjúklingur að hafa umönnunaraðila sér við hlið allan sólarhringinn. Umönnun slíkra sjúklinga sem eru heima er í höndum þeirra sem hafa fengið kennslu í að meðhöndla barkarennu sjúklings, aðrar þarfir hans, svo og öndunarvélar sem þessir sjúklingar þurfa á að halda. Sólarhringsþjónusta inni á heimili krefst eðli málsins samkvæmt aðkomu margra og er algengast að þeir sjúklingar fái notendastýrða persónulega aðstoð sem er félagslegt úrræði, félagsleg þjónusta, sem einstaklingur hefur þá sótt um. Einnig eru dæmi þess að einstaklingar hafi fengið beinan fjárstuðning frá sveitarfélögum til að mæta kostnaði við sólarhringsumönnun. Þeir sjúklingar sem hér um ræðir njóta einnig heilbrigðisþjónustu á heimili sínu. Stærsti þáttur þeirrar þjónustu er heimahjúkrun, en einnig er heimilislæknir sjúklings og sjúkrahús landsmanna til reiðu með leiðsögn og ráðgjöf auk þess að bregðast við bráðavanda ef svo ber undir. Þá sjá sjúkrahúsin um eftirlit með öndunarvélunum og kennslu til þeirra sem sjá um umönnun sjúklinganna.

Í öðru lagi var spurt um það hvort nú væri mögulegt að fá aðstoð sérhæfðs starfsfólks við daglegt líf á heimili sjúklinga eftir þörfum. Ég tel mig hafa að mestu svarað þeirri spurningu hvað varðar heilbrigðisstarfsmenn í svari mínu við fyrri spurningunni, en vil þó árétta að heilbrigðisstarfsfólk er ekki með fasta viðveru á heimili sjúklings. Hins vegar eru dæmi um að slíkt starfsfólk komi allt að sex sinnum á sólarhring til mikið veikra einstaklinga og einstaklinga með sömuleiðis flókin heilsufarsvandamál og hver vitjun getur varað í allt að tvær klukkustundir í hvert sinn.

Þriðja spurningin lýtur að því hvort sjúklingum sem þurfa aðstoð við tjáningu standi til boða samskiptatækni og þjálfun í notkun þeirra án þess að þurfa að bíða eftir tækjum eða þjálfun. Í framkvæmdaáætlun félagsmálaráðherra í málefnum fatlaðs fólks fyrir árið 2015 var úthlutað fjármagni til þess að hægt væri að fylgja eftir fjórum til fimm einstaklingum sem eru með flókinn tjáskiptabúnað og þurfa af þeim sökum sérstaka leiðsögn og stuðning. Um er að ræða tilraunaverkefni sem unnið er að í samráði við hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga Íslands. Samkvæmt mínum upplýsingum er þetta verkefni enn í gangi og miðar hluti þess að því að meta hvernig aðstoð og stuðningi af þessu tagi verði best komið fyrir til framtíðar.

Í fjórða lagi og síðasta lagi var spurt að því hvort starfandi væri heimili til hvíldarinnlagnar sem hefði á að skipa sérhæfðu starfsfólki fyrir umrædda sjúklinga. Á mörgum heimilum stendur sjúklingum sem búa heima til boða aðkoma til hvíldarinnlagna. Hins vegar er ekkert hjúkrunarheimili sérhæft til þess að veita ákveðnum sjúklingahópum, hvort heldur þessum eða öðrum, sérstaka þjónustu.

Í svari mínu við fyrstu spurningu hv. þingmanns greindi ég frá því að til að tryggja öryggi sjúklings sem þarf langtímameðferð í öndunarvél þarf sjúklingur að hafa umönnunaraðila sér við hlið allan sólarhringinn. Því er til að svara að ekkert hjúkrunarheimili er með slíka mönnun frá degi til dags, að geta haft starfsmann bundinn við umönnun eins sjúklings allan sólarhringinn. Ef slík þörf og slíkar óskir kæmu fram yrði að skoða það sérstaklega í hverju tilviki fyrir sig. Eins og þjónustu er háttað á hjúkrunarheimilum í dag þarf að taka það upp við tiltekinn rekstraraðila þar sem óskað er eftir vist eða þar sem hvíldarinnlögn býðst hverju sinni.

Virðulegi forseti. Ég vona að þetta hafi að sinni svarað spurningum hv. þingmanns.