145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

þjónusta við þá sem þarfnast langtímameðferðar í öndunarvél um barkarennu.

380. mál
[16:09]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að blanda mér inn í þessa umræðu, en þó að hún snúist kannski á yfirborðinu um tæknilega heilbrigðisþjónustu kemur hún inn á fleiri þætti. Hæstv. ráðherra kom í svari sínu inn á NPA, notendastýrða persónulega aðstoð, sem hann benti á að væri félagslegt úrræði. Þar með geri ég ráð fyrr að hæstv. ráðherra sé að vísa til þess að það sé þá mál sem er á könnu hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra.

Nú er það hins vegar svo að líf fólks, og það gildir líka um líf þeirra sem eru með langvinna sjúkdóma, er samfella en er ekki kafla- eða deildaskipt eftir því hvað hentar ráðuneytum Stjórnarráðsins. (Forseti hringir.) Mér finnst það kristallast í þessari fyrirspurn að það verður alltaf að hugsa heildstætt um þessi mál.

Ég vil beina því til hæstv. ráðherra að á meðan þessi mál eru (Forseti hringir.) klippt á milli tveggja ráðuneyta þá tali hæstv. ráðherrar saman og finni lausn til að langveikt fólk geti lifað heildstæðu lífi.