145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

þjónusta við þá sem þarfnast langtímameðferðar í öndunarvél um barkarennu.

380. mál
[16:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mér fannst það einmitt kristallast mjög skýrt í svörum hans að hér þurfa að vera bæði félagsleg úrræði og heilbrigðisþjónusta sem tali saman. Það er ekki bara ríkið sem þarf að hafa eitthvað um þetta að segja heldur líka sveitarfélögin. Ég held að þar standi hnífurinn í kúnni. Það virðist ekki vera neinn einn ákveðinn innan kerfisins sem stýrir því að stjórnsýslustig og ráðuneyti tali saman. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að leiðrétta mig ef ég fer með rangt mál og segja mér þá hver það er innan kerfisins sem tekur af skarið til að gæta hagsmuna fólksins. Ég er alveg viss um að hæstv. ráðherra er sammála því að ef einstaklingar geta valið að fá öndunarvél með barkarennu þá verði að tryggja framhaldið og lífsgæði eins og kostur er, hvort sem það er fyrir sjúklingana eða fyrir aðstandendur.

Fyrir þinginu liggur þingsályktunartillaga þar sem þingmenn úr öllu þingflokkum leggja til að heilbrigðisráðherra verði sá sem haldi utan um hagsmuni fólksins og settur verði saman hópur til að móta tillögur um skipulag heimaþjónustu, rekstur heimilis til hvíldarinnlagningar og samskiptatækja og þjálfun í notkun þeirra.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi skoðað þessa þingsályktunartillögu þó að hún hafi ekki komist á dagskrá og hvort hann telji ekki nauðsynlegt og tímabært að koma á slíku teymi til þess að halda utan um hagsmuni fólksins og tryggja að þeim sem velja þessa leið sé ferillinn greiður í framhaldinu og haldið verði utan um hag fólksins.