145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

framkvæmd þingsályktunar um að draga úr plastpokanotkun.

388. mál
[16:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Alþingi samþykkti eftirfarandi þingsályktun 1. júlí á síðasta ári:

„Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að finna leiðir til að minnka plastpokanotkun hér á landi. Við val á leiðum til þess verði litið til annarra ríkja í Evrópu þar sem markvisst hefur verið dregið úr plastpokanotkun. Aðgerðaáætlun verði birt fyrir 1. mars 2015.“

Í greinargerð segir:

„Undanfarna áratugi hefur mikil vakning orðið í samfélaginu um umhverfisvernd og endurnýtingu. Samfara auknu upplýsingaflæði og tæknivæðingu hefur endurvinnsla á notuðum umbúðum aukist til muna. […]

Það er alkunna að plastpokar og aðrar plastumbúðir utan um matvæli og efnavörur hafa skaðleg áhrif á umhverfið. Plast eykur eftirspurn eftir olíu og það brotnar treglega niður í náttúrunni. Áætlað er að hver íbúi Evrópusambandsins noti að meðaltali um 500 plastpoka á ári, flesta þeirra einungis einu sinni. […]

Léttir plastpokar eru að jafnaði ekki notaðir oftar en einu sinni en geta verið hundruð ára að eyðast í náttúrunni, oft í formi örsmárra plastagna sem geta verið skaðlegar náttúru, til að mynda fyrir lífríki hafsins. Þannig hafa hafstraumar smalað plastögnum úr plastpokum og ýmsu öðru í gríðarstóra fláka í Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi. Plastrusl í hafi getur einnig haft verulegan kostnað í för með sér fyrir útgerðir vegna plasts sem flækist í veiðarfærum, skrúfum o.s.frv. Talið er að árlega endi 8 milljarðar plastpoka í ruslinu í Evrópu sem hefur í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir lífríkið.“

Í nýlegri frétt frá RÚV segir að ef fram haldi sem horfi verði meira um plast en fisk í sjónum árið 2050. Í fréttinni segir, með leyfi forseta:

„Stöðugt bætir í plastruslið sem flýtur um heimsins höf. Ef þessu verður ekki snúið við verður meira af plasti en fiski í sjónum eftir nokkra áratugi. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu World Economic Forum, alþjóðaefnahagsráðsins. Rúmlega þriðjungur allra plastumbúða endar úti í náttúrunni og veldur þar vistkerfum skaða.

Aðeins 14% plasts er safnað til endurvinnslu, en rúmlega 58% pappírs og 70–90% af járni og stáli. Nú er eitt tonn af plasti í sjónum fyrir hver fimm tonn af fiski […] Sérfræðingarnir segja í skýrslunni að samt sé ekki öll von úti, ný efni og ný tækni geti spornað við þróuninni og mikið verk sé óunnið í endurnýtingu plasts.“

Herra forseti. Einfaldar aðgerðir geta haft töluverð áhrif á lífríki í langan tíma. Hver plastpoki sem fýkur út í veður og vind getur orðið upphaf að langri og afdrifaríkri atburðarás sem ekki hefði farið af stað ef meiri áhersla hefði verið lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir í upphafi.

Því spyr ég hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra: Hvað líður framkvæmd þingsályktunar um að draga úr plastpokanotkun sem samþykkt var 1. júlí sl.?