145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

framkvæmd þingsályktunar um að draga úr plastpokanotkun.

388. mál
[16:23]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er gríðarlega mikilvæg umræða sem á sér stað hér um hvernig megi draga úr plastpokanotkun. Ég mundi nú vilja útvíkka það og segja bara hreinlega plastnotkun. En plastpokanotkun er vissulega mjög stór hluti af plastnotkuninni.

Líkt og kom fram í ræðu hv. fyrirspyrjanda sem og í svari hæstv. ráðherra er rosalega mikið vitað um skaðsemi plasts. Ég held að við séum komin á þann stað að við þurfum ekkert að ræða um það hvað plast í náttúrunni er skaðlegt. Líkt og hv. fyrirspyrjandi rakti liggur líka fyrir hversu mikið er af plasti í sjónum nú þegar og einnig hverjar framtíðarhorfurnar eru, það verði jafn mikið í tonnum talið af plasti (Forseti hringir.) og fiski árið 2050. Ég vil því segja við ráðherra: Mér finnst að við verðum að taka þessa umræðu hratt. (Forseti hringir.) Það er gott að búið sé að skipa starfshóp en það verður að vinna hratt í þessu efni því við erum eiginlega að verða of sein.