145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra í gær um kaup og kjör aldraðra og öryrkja; hvort sú hækkun sem SALEK-hópurinn komst að samkomulagi um mundi ekki skila sér til þeirra, þ.e. að færa þessi 5,5%, sem áttu að koma 1. maí á þessu ári, til kjarahækkunar upp á 6,2% frá 1. janúar sl. Ég vitnaði í mjög miklar deilur í desember við umræðu um fjárlög og fjáraukalög og mikinn afgang af fjárlögum. Og ég vil enn einu sinni gera þetta að umtalsefni úr þessum ræðustól Alþingis.

Eins og hv. þm. Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, orðaði það í haust eru Alþingi og alþingismenn, þar með talið ráðherrar, kjararáð aldraðra og öryrkja. Það erum við í þessum sal sem semjum um hvað skal greiða í laun til aldraðra og öryrkja, þeirra sem minnst hafa í þjóðfélaginu. Ég vil ekki trúa því, virðulegi forseti, að ríkisstjórnarflokkarnir, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, ætli að halda sér við það núna að þessi 6,2% hækkun til almennings á launamarkaði muni ekki ganga til þessa þjóðfélagshópa strax á sama tíma og aðrir fá.

Ætla sjálfstæðismenn og framsóknarmenn að bíða með þessa hækkun til 1. janúar 2017? Ég trúi ekki að ekki sé hægt, á vegum forustumanna stjórnmálaflokka hér á Alþingi, að setjast niður og komast að samkomulagi um að klára þann kjarasamning sem gerður hefur verið á Íslandi og er, samkvæmt samkomulagi SALEK-hópsins, til áramóta 2018/2019, sem er mjög gott, friður á vinnumarkaði. Sköpum líka frið um kjör aldraðra og öryrkja með því að þessi hækkun gangi til þeirra strax.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna