145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

Parísarfundurinn um loftslagsmál, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[14:12]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa skýrslu og vil taka undir þakkir hennar til sendinefndarinnar sem fór fyrir okkar hönd til Parísar vegna þess að ég, eins og ráðherrann, tel að þar hafi náðst mjög mikilvægt samkomulag. En eins og kom fram í máli ráðherrans þá er eitt að gera samkomulag og ná orðum niður á blöð en svo er hins vegar framkvæmdin öll eftir og það er stóra verkefnið.

Ég hef áður sagt að ég hefði viljað sjá að sóknaráætlunin sem hæstv. ráðherra nefndi í máli sínu væri víðtækari. Ég held að við séum komin þangað að við þurfum að taka höndum saman með atvinnulífinu. Við þurfum að taka höndum saman þverpólitískt til að takast á við þetta verkefni. Það er best gert, tel ég, með því að fara t.d. þá leið sem Reykjavíkurborg hefur farið sem er að vera með mjög víðtæka áætlun um framlag sitt til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Reykjavíkurborg hefur líka gert mjög merkilegt samkomulag við yfir 100 fyrirtæki hér á landi sem ætla að taka þátt í þessu verkefni. Ég vona að það muni þróast út í það að ríki og sveitarfélögin starfi betur saman á þessu sviði svo við náum sem bestum árangri og ríkið komi einnig meira inn í þessa vinnu með fyrirtækjunum.

Það sem ég vildi líka segja er að það hefur verið dálítið merkilegt á undanförnum árum að fylgjast með þessari umræðu. Það hafa verið mjög sterkir talsmenn þess að við þyrftum að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Í samfélagi okkar lengi framan af þóttu þetta ferlega hallærisleg viðhorf og talið að menn væru þar með á móti hjólum atvinnulífsins og væru einhvern veginn að reyna að stoppa einhverjar framfarir þegar hið öndverða er að koma í ljós. Það er nefnilega þannig að umhverfismengunin sem við erum sjálf að valda hefur gríðarlega neikvæð áhrif á lífsgæði okkar og mun líka hafa mjög neikvæð áhrif á efnahagslíf heimsins til lengri tíma. Þetta er ekki lengur eitthvað sem við deilum um. Þetta er bara það sem við vitum og við erum þá að minnsta kosti loksins komin á þann stað að það er orðið almennt viðurkennt að rífa þurfi í handbremsuna og gera eitthvað raunverulegt í málum.

Þetta er eitt stærsta verkefnið á sviði efnahagsmála á okkar tímum og það er áhugavert að fylgjast með því að úti um allan heim er að verða mikil vakning og ríki eru að grípa til þess að skattleggja mengun, skattleggja útblástur. Eins og kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans þá virðist vera almenn samstaða um að verðið á útblástursheimildum sé allt of lágt til þess að það hafi nokkur áhrif og það sé í raun og veru almennt mun ódýrara að kaupa útblástursheimildir á markaði en að fara út í dýrar fjárfestingar og breytingar til að minnka útblástur. Þetta er eitthvað sem við sem stjórnvöld verðum að horfa til. Þetta þarf að bíta. Þetta þarf að skipta máli. Þetta þarf að hafa áhrif. Þetta þarf að verða til þess að menn taki ákvarðanir um að setja fjármagn í að fjárfesta í búnaði til þess að draga úr mengun. Þarna höfum við ekki staðið okkur. Þarna þarf ríkisstjórnin að mínu mati að svara því hvernig hún ætli að skattleggja og setja gjöld á mengun hér á landi og gera einhverja áætlun þar um vegna þess að það er þar sem bítur.

Þá er líka mjög áhugavert að fylgjast með því að víða um heim eru stórir fjárfestar á mörkuðum farnir að gera kröfur um að fyrirtæki sem þeir fjárfesta í séu með einhverjar áætlanir um hvernig þau ætla að leggja sitt af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta er líka að byrja að gerast hér. Hvers vegna? Það er vegna þess að það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir okkur Íslendinga sem byggjum efnahagslíf okkar að stóru leyti á auðlindanýtingu. Fiskurinn í sjónum er ekki bara hluti af efnahagslífi okkar heldur líka hluti af sjálfsmynd okkar og sögu. Útgerðin í landinu er auðvitað farin að hafa gríðarlegar áhyggjur af þessu vegna þess að mengun hefur mikil áhrif á fiskveiðar og sjávarútveginn. Súrnun sjávar er hafin og er óhjákvæmilegur fylgifiskur loftslagshlýnunar. Ef sú þróun heldur áfram mun það hafa gríðarleg áhrif á okkur. Í sjávarútveginum er því vilji til þess að taka á málum og það er vel og mikilvægt að við grípum það tækifæri og tökum höndum saman um að reyna að stuðla að viðsnúningi.

Ég vil líka nefna það að við munum sjá á okkar tímum, á næstu áratugum, gríðarlegar breytingar. Við munum verða vitni að því að lítil eyríki munu fara á kaf. Við munum verða vitni að því að landsvæði munu fara undir haf. Við erum farin að upplifa sjálf þessar loftslagsbreytingar á eigin skinni með breyttu veðurfari.

Virðulegi forseti. Ég hef áður sagt það í þessum stól að ég tel að tími einhverra lítilla táknrænna aðgerða sé liðinn og tíminn þar sem við þurfum að rífa í handbremsuna og gera róttækar breytingar á lifnaðarháttum okkar sé runninn upp. Þá mega ekki vera nein tabú. Þá verðum við að ræða mál eins og olíu. Teljum við forsvaranlegt við slíkar aðstæður og eftir þennan fund að sækja olíu á Íslandsmið? Við þurfum að spyrja okkur allra þessara stóru og mikilvægu spurninga.

Ég vænti þess að það verði gert og ég vil skora á hæstv. ráðherra að reyna að horfa dálítið breiðar á málin en að vinna eingöngu að sóknaráætlun með nokkrum öðrum ráðherrum í ríkisstjórninni og reyna heldur að víkka út þessa vinnu og kalla til þverpólitískan hóp sem og atvinnulífið og verkalýðshreyfinguna og aðra sem eitthvað geta að gert þannig að við getum náð breiðri samstöðu í samfélaginu um breytingar sem við þurfum að gera, líka til þess að við getum reynt að gera langtímaáætlun. Við vitum alveg að það sem háir líka þessum málaflokki er sú skammsýna pólitík sem við stundum því miður allt of mikið. Við náum svo sjaldan að gera áætlun sem heldur til lengri tíma. En með því að horfa breitt og hugsa á breiðum grunni þá ætti okkur að geta tekist það. Þá getum við til dæmis leitað í smiðju Reykjavíkurborgar sem ég tel að hafi gengið á undan með mjög góðu fordæmi með þeim samningum sem gerðir hafa verið við fyrirtæki.

Virðulegi forseti. Ég ætla að segja að lokum að við þurfum að grípa til alvöruaðgerða. Við þurfum að horfa til samgangnanna. Við þurfum að horfa til endurheimtar votlendis og það eru fleiri slíkir þættir sem við þurfum að ráðast í og ég held að við séum öll sammála um það. En það þarf að fara að stíga skrefin til aðgerða. Við þurfum að fara að gera eitthvað í þessu. Við eigum heilmikið af hugmyndum á blöðum. Við eigum alls kyns orð á pappír. En við þurfum að stíga róttækari skref á sviði skattamála og annarra sviða sem geta verið hreyfiafl í þessu.

Að lokum vil ég segja þetta. Ef við horfum bara á fréttirnar síðustu daga þá er í dag frétt á Vísi þar sem fram kemur að hækkun á yfirborði sjávar sé meiri en áður var talið og að vísindamenn hafi til þessa vanmetið hækkun á yfirborði sjávar sem rakin er til hlýnunar jarðar. Hún geti jafnvel orðið tvöfalt meiri en áður var talið. Þetta stafar aðallega af bráðnun jökla og þeirri staðreynd að vatn þenst út með hækkandi hitastigi og er þá að þenjast meira út en menn höfðu gert ráð fyrir. Síðan er önnur frétt þar sem er viðtal við Sigríði Kristinsdóttur, sérfræðing í haf- og vatnsteymi Umhverfisstofnunar, í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Þar fer hún yfir hvernig við eigum að umgangast náttúruna og fer yfir að það eru 300 milljón tonn af plasti í hafinu með tilheyrandi mengun sem af því hlýst.

Okkar bíða því risavaxin verkefni á sviði umhverfismála ef við ætlum ekki að standa frammi fyrir því að eftir örfá ár verði (Forseti hringir.) hlýnun jarðar farin að hafa þau áhrif sem ég nefndi og komið verði enn þá meira plast í hafið með tilheyrandi áhrifum á lífríki sjávar.