145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

Parísarfundurinn um loftslagsmál, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[14:40]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir ræðuna, þakka fyrir þessa umræðu og góðar ræður hv. þingmanna sem hafa talað á undan mér. Mig langar ekki til að stinga upp á nýjum lausnum eða nýjum frábærum uppfinningum til að bjarga heiminum, enda eru aðrir miklu betri en ég til þess, heldur langar mig að ræða um hugarfar.

Ég vil taka undir með öðrum hérna. Ég held að þetta sé eitt mikilvægasta málefnið sem við erum að ræða í pólitíkinni þessi árin. Við erum komin á ákveðinn stað, mannkynið á jörðinni. Það fer að skilja á milli feigs og ófeigs. Mannkynið hefur áttað sig á því að það hefur fullkomna getu til að eyðileggja, a.m.k. ganga langt í að eyðileggja, þessa jörð sem hefur fætt okkur og við höfum búið á. Hvað sem vísindaskáldsöguhöfundar láta sig dreyma um þá er nokkuð víst að við erum ekki með varajörð einhvers staðar sem við getum stokkið yfir á.

Það skiptir okkur mjög miklu máli að horfa til langs tíma. Við erum alltaf að tala um stutt tímabil. Þegar við tölum um peninga erum við að tala um ár eða ársfjórðunga. Þegar við erum að tala um áætlanir horfum við í mesta lagi til einhverra áratuga eða kynslóða. Þegar svona stórt mál er undir, öll jörðin, mannkyn, lífríkið eins og það gengur, þá er þetta spurning um að horfa til alda og árþúsunda þess vegna. Við megum ekki gleyma því að í stóra samhenginu er mannkynið nýkomið á jörðina, hvað þá sú mikla geta okkar til að hafa áhrif á lífríkið.

Við Íslendingar höfum dálitla tilhneigingu til þess að upplifa okkur áhrifalitla. Einstaklingurinn er lítill í íslenskri náttúru og við erum vön að geta sparkað í steininn og það hafi ekki mikil áhrif á heiðina sem við stöndum á ein og yfirgefin. Ég held að við séum að átta okkur betur og betur á því að við erum hluti af þeirri stóru heild sem öll jörðin er. Við höfum lært það í okkar minna samfélagi að við verðum að hegða okkur á ábyrgan hátt. Það þýðir ekki að eyðileggja tún með ofnotkun eða náttúruna með ofbeit. Það þýðir ekki að veiða svo mikið af fiski að fiskstofnarnir deyi út. Þetta höfum við lært, en við erum held ég þessa dagana að læra að hugsa í stærra samhengi, þ.e. ekki bara út frá túninu okkar heima eða út frá landinu okkar litla og það hvað við spörum mikið með því að hita húsin okkar með endurnýjanlegri orku, sem er frábært, heldur erum við að læra að hugsa „glóbalt“, að við þurfum að taka þátt, gera okkar sem lítil þjóð til að taka þátt í góðri þróun. Það sem við höfum getað gert, t.d. í jafnréttismálum, er að ganga á undan með góðu fordæmi og hvetja heimsbyggðina til að færa til betri vegar. Þetta getum við gert. Þetta erum við að gera.

Það er mjög jákvætt að Ísland leggi áherslu á þekkingu sína og reynslu, t.d. í jarðhita, en gleymum því ekki að meira að segja í jarðhitanum höfum við stundum haft tilhneigingu til þess að ganga of langt. Við höfum farið í framkvæmdir þar sem við göngum á ósjálfbæran hátt á jarðhita. Auðvitað höfum við lært af því. Það er mikilvægt að við lærum af því og komum þeim lærdómi áfram.

Það þarf róttæka breytingu á hugarfari. Við þurfum að læra að hugsa ekki hlutina bara út frá venjulegum mælikvörðum, sem eru gjarnan krónur og aurar og styttri tímabil, heldur þurfum við að horfa á aðrar mælingar; eins og menn hafa verið að feta áfram að mæla hamingju meðal þjóða, fara í grænt bókhald, kynjaða fjárhagsáætlanagerð o.fl. Þetta þurfum við að gera í stóra samhenginu.

Við skulum ekki gleyma því á Íslandi að áhrif loftslagsins á súrnun sjávar og bráðnunar jökla hefur mjög mikið áhrif á veður og lífríki okkar og möguleika okkar til þess að búa hérna. Það er góður bisness hreinlega fyrir okkur að umgangast jörðina á sjálfbæran hátt. Það er stundum talað um að við þyrftum — ég man nú ekki einu sinni hvað margar jarðir til þess að standa undir neyslu okkar eins og hún er í dag. Það skiptir í raun og veru ekki máli hvað það eru margar jarðir sem þarf, ef það er meira en þessi eina sem við höfum þá er það of mikið, þá er það ekki sjálfbært, þá erum við að éta mjólkurkúna hægt og rólega eða hratt og örugglega og sitjum eftir í miklum vandræðum.

Ísland hefur mikil tækifæri. Við erum rík. Við erum menntuð. Við erum lítil og getum verið framsækin, gert hluti sem hvetur aðrar þjóðir til dáða. Það eina sem við þurfum að gera til þess að geta það er að standa saman um það, vera óhrædd og dálítið róttæk. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)