145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

Parísarfundurinn um loftslagsmál, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[14:53]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra skýrsluna sem hún flutti í upphafi og alla þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ráðstefnan í París og samkomulagið þar mörkuðu sannarlega tímamót, en það er undir öllum íbúum þessarar jarðar komið að halda áfram með verkefnið.

Framfarir í umhverfismálum skila framförum fyrir samfélagið. Þess vegna er ég mjög ánægð með þá sóknaráætlun sem ríkisstjórnin hefur lagt fram í loftslagsmálum sem og framlag sendinefndanna og íslenskra ráðherra í París. Íslendingar hafa miklu að miðla til alþjóðasamfélagsins, svo sem varðandi nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa — þar höfum við af mikilli reynslu að taka — möguleika á bindingu kolefnis með endurheimt vistkerfa, tækniframförum í orkunýtingu og fleiru. En til þess að hafa áfram einhverju að miðla verðum við að sýna metnað og halda áfram að bæta okkur. Metnaðarfull vinna að loftslagsmálum getur samhliða því að draga úr loftslagsbreytingum dregið úr mengun í nærumhverfi, byggt upp gróðurauðlind, stuðlað að líffræðilegri fjölbreytni, sparað gjaldeyri, hvatt til betri orkunýtingar, aukið hagkvæmni í rekstri og ýtt undir nýsköpun. Það eru sem sagt fjölmargir þættir sem geta farið saman og þurfa að fara saman til að árangur náist.

Mig langar að koma aðeins inn á tækifærin sem við eigum til að binda kolefni, en stefnt er að því í sóknaráætluninni að auka fé til landgræðslu, skógræktar og endurheimtar votlendis. Þetta er verkefni sem stjórnvöld og einkaaðilar geta varið fjármunum til, en framkvæmdin þarf að vera hjá þeim sem nýta eða bera ábyrgð á landinu. Áríðandi er að vinna að þessum verkefnum byggi á skipulagsáætlun og heildarsýn á landnýtingu, svo sem í gegnum landsáætlanir í skógrækt, landgræðslu eða endurheimt vistkerfa.

Hér á landi hafa verið unnin tilraunaverkefni við endurheimt votlendis sem lofa góðu, en mikilvægt er að fram fari greining á því hver raunveruleg stærð framræsts votlendis er og hvar endurheimt getur átt við.

Á þessu sviði er líka mikilvægt að byggja á íslenskum rannsóknum og mati á árangri þó að rannsóknir, sem hafa farið fram hér, bendi til þess að yfirfæra megi niðurstöður að utan. Það er hins vegar mikil einföldun, eða hreinlega afbökun staðreynda, að halda því fram að við getum uppfyllt okkar loftslagsmarkmið eingöngu með endurheimt votlendis. Framræst mýrlendi losar vissulega mikið af kolefni, en það á sér líka stað losun gróðurhúsalofttegunda frá óframræstu mýrlendi og öðru landi. Skynsamleg nýting eða vernd hvers svæðis þarf einfaldlega að byggja á því að vega og meta hvert svæði miðað við bestu þekkingu og aðstæður.

Það er líka mikilvægt verkefni að draga úr matarsóun. Það er eitt af verkefnunum í sóknaráætluninni. Þar getum við öll komið að því að matarsóun veldur mikilli og óþarfri kolefnislosun. Oft er það þannig að við viljum tileinka okkur loftslagsvænan lífsstíl og er hollt að horfa til eldri kynslóða varðandi nýtni og neysluvenjur. Samhliða er mikilvægt að skoða kolefnisspor matvæla og horfa þá til þátta eins og landnýtingar, flutninga og orkunýtingar við framleiðslu matvælanna. Þannig má ganga út frá því að matvæli skilji eftir sig því minna kolefnisspor eftir því sem þeirra er neytt nær framleiðslustað. Það er engan veginn hægt að ganga út frá því að ávextir framleiddir í hitabeltinu, sem neytt er hér á landi, skilji eftir sig minna kolefnisspor en kjöt framleitt í næsta nágrenni.

Virðulegi forseti. Árangur í loftslagsmálum byggir á víðtækri samvinnu en líka á því að við öxlum hvert og eitt ábyrgð og leggjum okkar af mörkum og virðum fjölbreyttar leiðir að sama markmiði.