145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

Parísarfundurinn um loftslagsmál, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[14:58]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil, líkt og aðrir hér á undan mér, þakka hæstv. ráðherra fyrir að flytja okkur skýrslu um þetta mjög svo mikilsverða málefni. Eins og komið hefur fram í ræðum hér á undan er þó alls ekki um að ræða eitt einangrað verkefni heldur verður að líta á öll þau verkefni sem við tökum okkur fyrir hendur í ljósi þess hvaða áhrif það hefur á loftslagsmálin. Þetta er ákaflega víðfeðmt og vegna þess hve þetta snertir marga þá fagna allir niðurstöðu loftslagsráðstefnunnar í París.

Ég ætla að nefna þrjú stór atriði sem þar voru ákveðin. Það þarf að tryggja að hlýnun verði innan við 2ºC og reynt verður að halda henni innan við 1,5ºC á næstu áratugum. Það á að fylgja þessu eftir reglulega og uppfæra landsmarkmiðin á fimm ára fresti og ríku þjóðirnar ætla að leggja 100 milljarða dollara á ári í loftslagsaðstoð til þróunarríkja. Þótt okkur finnist það liggja í augum uppi að þetta þurfi að gera þá var það mikill áfangi þegar hin ríkari lönd horfðust í augu við það og viðurkenndu að við höfum nýtt það sem jörðin hefur upp á að bjóða til að auka ríkidæmi okkar. Við þurfum því að horfa til þess, þegar settar eru hömlur á koltvísýringsútblástur, að aðrar þjóðir hafa ekki sömu tækifæri og því er þetta framlag til þróunarríkjanna nauðsynlegt.

Auðvitað eru þeir til sem segja að breyting á loftslagi sé ekki öll mannanna verk, heldur skiptist á hlý skeið og köld á jörðinni og hafi væntanlega gert um milljónir ára. Það breytir því ekki að við verðum að láta náttúruna njóta vafans í því efni og gera það sem við getum til að halda hlýnun í skefjum; hlýnunin þurrkar upp vötn í Afríku og hækkar vatnsyfirborð annars staðar, þannig að lönd eiga á hættu að sökkva í sæ.

Halldór Björnsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, setti markið um 1,5ºC hlýnun í samhengi. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Til að setja 1,5ºC markið í samhengi er rétt að athuga að hlýnun jarðar er frá upphafi iðnbyltingar nú þegar nærri því að vera 1ºC. Ef öll losun yrði stöðvuð samstundis myndi jörðin samt halda áfram að hlýna næstu áratugi og hlýnunin að lokum verða 1,2–1,3ºC, miðað við tímann fyrir iðnbyltingu. Það þarf því mjög mikið átak til þess að hlýnun fari ekki yfir 1,5ºC.“

Það er því alveg ljóst að við höfum stórt og mikið verkefni að vinna.

Virðulegi forseti. Ég vil líka segja, eins og aðrir hafa bent á hér áður, að ráðstefnan sem slík er einungis upphafið og árangurinn er ekki undirskrift í apríl; það verður ábyggilega glæsileg athöfn sem verður fagnað um heim allan, en það er bara undirskriftin. Það sem skiptir máli er að þjóðir (Forseti hringir.) framkvæmi og geri það sem þær hafa skrifað undir. Hver þjóð verður að sjá um sig og vera ábyrg fyrir sjálfri sér og síðan allar saman.