145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

Parísarfundurinn um loftslagsmál, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[15:09]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og skýrslu hæstv. umhverfisráðherra um ráðstefnuna sem haldin var í París í lok nóvember og byrjun desember síðastliðnum.

Niðurstaða fundarins var, eins og rakið hefur verið hér í nokkrum ræðum hv. þingmanna, tiltekið samkomulag um markmið um að láta lofthjúpinn ekki hitna um meira en 2 gráður. Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að þá er miðað við tímabilið frá því fyrir iðnbyltingu og fram til ársins 2050. Þetta var sem sagt allsherjarsamkomulag og mikill fögnuður braust út á fundinum þegar þessu samkomulagi var náð. Því var hins vegar ekki svarað hvernig menn ætla að ná þessu markmiði. Í því sambandi er gott að hafa í huga að 85% af orkunotkun alls mannkyns er mætt í dag með olíu, kolum og gasi. Þetta eru þeir orkugjafar sem öðru nafni eru nefndir óendurnýjanlegir orkugjafar. Þetta hlutfall hefur breyst afar lítið síðustu áratugi. Það er því spurning hvort menn sjái fyrir sér að allur heimurinn hætti til dæmis alfarið að nota jarðefnaeldsneyti ef horft er til þessa hlutfalls.

Það er ánægjulegt að á Íslandi horfir þetta öðruvísi við. Því er þveröfugt farið hér á landi þar sem gróft 70–80% af orkunotkun Íslands er einmitt mætt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þetta er ánægjulegt og mér finnst ástæðulaust annað en að halda því til haga í þessu sambandi þegar horft er á þessar tölur og staðreyndir málsins að Íslendingar eru ekki stórt vandamál í loftslagsmálum þótt vissulega sé útblástur á koltvísýringi hér á landi mikill per haus svo notuð sé nú mælieining sem við Íslendingar grípum gjarnan til. Það er sjálfsagt að huga að leiðum til þess að draga úr losun koltvísýrings hér á landi og það eru mikil tækifæri fyrir þá sem hafa raunverulegan áhuga á að draga úr raunverulegri losun koltvísýrings.

Ég tel mikilvægt að alls kyns pólitísk kredduhugsun eins og til dæmis hatur á einkabílnum blindi mönnum ekki sýn á verkefnið sem er fyrir höndum og markmið sem menn eru sammála um að ná.

Margar þeirra aðgerða í loftslagsmálum sem íslenska ríkið og sveitarfélög reyndar líka hafa gripið til á undanförnum árum og ekki síst á síðasta kjörtímabili hafa þó verið þessu marki brenndar, því miður, þ.e. pólitísk kredduhugsun hefur ráðið för. Þess vegna hafa þær aðgerðir ýmist reynst algjörlega haldlausar eða raunverulega gert illt verra.

Flestar þær aðgerðir sem ég hef í huga í þessu sambandi lúta að bíleigendum. Undirstofnanir umhverfisráðuneytisins dreifa enn upplýsingum þar sem fram kemur að bílar eigi stóran þátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Það er alrangt eins og fram kom í svari hæstv. umhverfisráðherra við fyrirspurn minni um slíka losun í haust sem leið. Hlutur fólksbíla í útblæstri gróðurhúsalofttegunda hér á landi er innan við 4%. Af þeirri ástæðu hafa aðgerðir gegn bíleigendum mjög lítið að segja í heildarmyndinni í þessum málum.

Mig langar einnig að nefna tvær aðrar mislukkaðar aðgerðir gegn bíleigendum sem efnt hefur verið til í nafni loftslagsmála. Annars vegar er sú stefna sem á síðasta kjörtímabili var mörkuð um að landsmenn skyldu frekar aka um á dísilbílum en bensínbílum. Fram að þeim tíma höfðu flestir landsmenn kosið bensínbíl fram yfir dísilbíl og það réttilega. Í útblæstri bensínbíla er nefnilega talið mun minna af skaðlegum efnum á borð við sót og það sem kallað er NOx, köfnunarefnisoxíð. Bensínbílar eru þess utan miklu ódýrari í innkaupum en dísilbílar.

Með skattalegum aðgerðum gegn bensínbílnum ákvað vinstri stjórnin hins vegar að gera útsöluverð bensínbíla mun hærra en dísilbílanna og stuðla þannig að óþarflega dýrum innkaupum á bílum til landsins. Dýrari og meira mengandi bílar voru niðurstaðan af þessu brölti.

Hitt dæmið sem mig langar að nefna er lög um notkun svonefnds endurnýjanlegs eldsneytis á bíla sem sett voru í lok síðasta kjörtímabils með afar sérstæðum hætti eins og hv. þingmenn muna kannski og hefur verið fjallað um í fjölmiðlum. Þau hafa leitt til stórfellds innflutnings á fáránlega dýrri lífolíu sem blandað hefur verið í dísilolíu og einnig dýru og orkusnauðu kornetanóli sem ég hef oft leyft mér að kalla bara matarafganga, reyndar mat þótt þetta sé ekki matur. Íblöndun etanóls í bensínið eykur eyðslu í bílvélum og þar með innflutning á eldsneyti þannig að þetta lagaboð hefur kostað Íslendinga marga milljarða í erlendum gjaldeyri og það er enginn umhverfislegur ávinningur af þessu. Þvert á móti má gera ráð fyrir að skógarnir séu ruddir og votlendi ræst fram undir ræktun sem þessu er tengd og af því leiðir að það er minna land til ræktunar til manneldis. Ég ætla ekki að fara út í áhrifin á matvælaverð í heiminum sem af þessu hefur hlotist.

Í fljótu bragði sýnist mér að við Íslendingar brennum núna í bílum okkar matvælum sem mettað gætu 100 þús. manns á ári. Við höfum sjálf skyldað okkur með þessu til að nota fæðu fyrir um 100 þús. manns á bílana okkar.

Ég hef spurt að þessu áður en spyr enn og aftur: Þykir mönnum þetta boðlegt þegar við blasir heimur þar sem milljónir manna svelta?

Ég vék að því í upphafi að vissulega væru tækifæri til staðar á Íslandi. Það eru tækifæri fyrir okkur til að draga úr losun koltvísýrings sem við erum sammála um að sé æskilegt að gera, þ.e. að draga úr þeirri losun. Tækifærin eru til dæmis þar sem losunin á sér stað í mestum mæli, en það er vegna framræsts lands. Endurheimt votlendis skilar mestum árangri í þessum efnum. 72% af losun koltvísýrings stafa af framræstu landi. Aðeins um 14% af þessu framræsta landi eru í rækt svo því sé haldið til haga þannig að þarna eru mjög mikil tækifæri.

Það er mikilvægt að stjórnmálamenn geri sér grein fyrir hlutverki sínu í þessum málum almennt. Hlutverk stjórnmálamanna er, eins og einn hv. þingmanna kom að í ræðu sinni, ekki að finna lausnir á þessum vanda, finna upp nýja hluti sem draga úr losun eða tæki og tól sem skipta þarf út. Það er ekki hlutverk stjórnmálamanna. Við erum ekki vel til þess fallin að gera það. Hlutverk stjórnmálamanna er hins vegar að rugla ekki umræðuna, heldur varpa ljósi á staðreyndir, koma réttum upplýsingum á framfæri en ekki röngum eins og dæmi eru um, eins og ég hef fyrr komið að.

Einkaaðilar eru miklu betur til þess fallnir að grípa til aðgerða í þessum efnum með uppfinningum sínum og áhuga. Ég nefni það sérstaklega hvað varðar endurheimt votlendis en nú þegar eru einkaaðilar, reyndar fyrir löngu, mörgum árum, byrjaðir að endurheimta votlendi, einkaaðilar sem höfðu þessar upplýsingar fyrir mörgum árum, áratugum reyndar, hvað losunina varðar. Ég hef séð fréttir um að fleiri einkaaðilar hyggist endurheimta votlendi með ýmsum hætti.

Þá er ekki óeðlilegt að nefna sjávarútveginn, undirstöðuatvinnugrein okkar. Frá árinu 1990 þegar kvótakerfinu var komið á hefur losun koltvísýrings frá sjávarútvegi minnkað um 38% sem er í góðu samræmi við hin tölusettu markmið hæstv. umhverfisráðherra, sem voru lögð hér fram og kynnt á síðasta ári, markmið um 40% minnkun í losun koltvísýrings í sjávarútvegi. Sjávarútvegurinn er löngu búinn að ná þessu markmiði.

Í lokin vil ég nefna tækifæri sem við Íslendingar eigum auðvitað að huga að. Ef það er einhver möguleiki á að þeirri umframorku sem hugsanlega er hér til staðar verði veitt til annarra landa þar sem ekki er kostur á endurnýjanlegri orku eigum við auðvitað að skoða það með opnum huga hvort það sé fýsilegur kostur að leggja sæstreng frá Íslandi til annarra landa. Ég vil þó árétta að það má ekki vera á ábyrgð, áhættu (Forseti hringir.) eða kostnað skattgreiðenda heldur einkaaðila.