145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

Parísarfundurinn um loftslagsmál, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[15:30]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að gera grein fyrir skýrslu um fundinn í París. Þar var undirritað samkomulag milli fjölmargra ríkja og markmið þess er að halda hlýnun innan tveggja gráða. Jafnframt er stefnt að því að hlýnun geti orðið undir einni og hálfri gráðu. Vandinn er margþættur og kallar á lausnir þar sem ávinningur er sýnilegur. Fæst okkar vita hvað hægt er að gera í daglegu lífi til að takast á við vandann og festa fingur á hvar neikvæðustu umhverfisáhrifanna gætir. Verkefnin fram undan eru að tengja yfirgripsmikil loftslagsmál við samfélagið þannig að allir leggi sitt af mörkum og gera ávinninginn sýnilegan og skiljanlegan.

Þó svo að við búum yfir mikilli þekkingu á vissum sviðum eins og margir þingmenn hafa nefnt hér á undan mér og mörg ríki öfundi okkur af endurnýjanlegri orku þá er víða gloppótt þekking á umfangi sóunar í virðiskeðju okkar. Það eru mörg jákvæð tækifæri sem hægt er að skapa til að ná settu marki og uppfylla samkomulag í loftslagsmálum. Fyrir neytendur er ávinningur í því að taka upplýstari ákvarðanir á grundvelli betri upplýsinga. Það er t.d. ekki augljóst hver heildarmengun af einum bíl er. Tiltölulega augljóst er hver útblásturinn er á rekstrartímanum, en ekki á framleiðslutíma eða hversu mikið af bifreiðinni er hægt að endurnýta. Hugsanlegt væri að breyta kolefnistollum í tengslum við þetta.

Tækninni fleygir fram samhliða aukinni eftirspurn. Nefna má dæmi um tækniþróun sem nálgast hratt í upplýsingatækni og greinir hvar mest er um umhverfisáhrif í viðkomandi vöru, framleiðslu eða þjónustu. Þess konar greining er ekki síst mikill hvati fyrir atvinnulífið og einstök fyrirtæki sem geta skapað sér samkeppnisforskot við það að greina og meta umhverfisáhrifin og kolefnissporin á nákvæmari hátt. Hægt er að staðsetja losun gróðurhúsalofttegunda, hvar hún er mest í virðiskeðjunni og grípa inn í með nýju verklagi eða nýrri tækni til að lágmarka umhverfisáhrif og sóun. Til að mynda gætu neytendur tekið upplýstar ákvarðanir og borið saman kolefnisspor íslenskra matvæla við kolefnisspor matvæla sem flutt er erlendis frá og hafa farið um langan veg.

Eins og kunnugt er hafa 195 ríki sameinast um að takast á við hættumörkin sem við erum þegar farin að sjá. Markmiðin hafa verið sett fram og áskoranir um að finna leiðina eða leiðirnar og geta þær verið mismunandi eftir ríkjum, löndum og landsvæðum.

Þjóðir heimsins horfa í auknum mæli til sjálfbærra orkulausna og fjárfestar sýna nýsköpun á þessu sviði meiri tiltrú. Allir þurfa að leggja sitt af mörkum til að árangur náist og framþróun megi verða til að bregðast hratt við loftslagsvánni. Íslenskir aðilar búa yfir mikilli þekkingu til að innleiða nýja tækni og skapa orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, en stigvaxandi eftirspurn er eftir fræðslu og miðlum. Við þurfum betri og nákvæmari upplýsingar sem varpa ljósi á hve mikið af auðlindunum fer til spillis þannig að hægt sé að sporna við sóun á flestum sviðum. Greina þarf umhverfisáhrif framleiðslunnar og öðru því sem er verið að bjóða. Nærtækast væri að nefna rusl, en rusl og úrgangur er ekki það sama. Rusl er verðmæti, en úrgangur er það sem ekki er hægt að nýta úr ruslinu. Til að gefa hugmynd um fjármunina sem eru í rusli má nefna að ein ríkasta kona Kína safnar rusli, endurvinnur það og selur.

Ég ætla að fara núna í ræðu minni örstutt yfir nokkur atriði í sóknaráætluninni sem hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin kynnti fyrir áramót en hún er til þriggja ára og hluti af útfærslu Íslands til að ná settu markmiði.

Hlutverk ríkisins er að hvetja til þróunar og uppbyggingar og faglegrar ákvarðanatöku. Ráðherra hefur sett fram 16 metnaðarfull og raunhæf verkefni sem verið er að útfæra og munu skila minni losun og meiri kolefnisbindingu en hefði verið að óbreyttu. Verkefnin eru fjölbreytt og skapa vettvang fyrir flesta sem vilja láta til sín taka. En það þarf hugarfarsbreytingu. Í fyrsta skipt er verið að setja af stað svona verkefni til þriggja ára til að tengja ólíka aðila saman og hvetja til víðtæks samráðs í átt að sjálfbærni. Við höfum allar forsendur og tækifæri frá náttúrunnar hendi til að ná langt í umhverfismálum og koma á sjálfbæru samfélagi. Þar liggur eitt helsta áhugamál mitt, orkuskipti í samgöngum og innviði fyrir rafbíla. Stjórnvöld hafa sett sér góð markmið um að rafbílar eða hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum verði að hafa náð 10% fyrir árið 2020. Ég held að þarna beri okkur að líta til frænda okkar í Noregi sem hafa náð mjög góðum árangri. Mig minnir að tölurnar fyrir 2015 séu að þar í landi hafi verið keyptir nýir 25 þús. rafbílar. Við þurfum að efla innviði fyrir rafbíla og einnig, eins og nefnt hefur verið hér í umræðunni, fyrir skip, bæði skemmtiferðaskip og önnur sem eru hér á landi, þannig að þau geti nýtt græna og endurnýjanlega raforku en ekki gengið á jarðefnaeldsneyti, a.m.k. ekki þegar þau eru í landi.

Ég vil nefna eitt skemmtilegt í starfi mínu hjá Þingvallanefnd. Við erum núna að setja upp rafhleðslustöð á Þingvöllum. Ég hef mikla trú á því að hún verði vel nýtt.

Hér í áætluninni er líka komið inn á umhverfisvænni landbúnað, eflingu skógræktar, áætlun um endurheimt votlendis og að draga úr matarsóun eins og komið hefur verið inn á. Ísland þarf að vera virkur málsvari loftslagsmála á alþjóðavísu. Ég vil nefna líka samstarf um norðurslóðir og þátttöku í því og græna loftslagssjóðinn.

Ég hef mjög lítinn tíma í viðbót og ætla því að stökkva aftast í ræðu mína. Ísland er lítið eyríki og við byggjum alla okkar afkomu á náttúrunni, landinu og sjónum. Við þurfum að bera virðingu fyrir því og líklega á Ísland meira undir en mörg önnur ríki. Ég held þess vegna að Ísland ætti að hafa forustu um að hafa eftirlit með framgangi samnings eins og undirritaður var í París. Það er ekki nóg að ríki (Forseti hringir.) lagi hlutfall sitt, heldur þarf að draga úr notkun gróðurhúsaloftegunda og binda kolefni, t.d. með endurheimt votlendis.