145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

156. mál
[16:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir spurningu hennar sem lýtur að því hvort ekki hefði mátt auka frelsið í þessu efni um leið og við leyfum og heimilum notkun fánans. Þau sjónarmið komu skýrt fram í nefndinni og ég er tiltölulega hlynntur þeirri leið sem Danir fara. Ef íslenskt fyrirtæki starfar undir íslenskri kennitölu og framleiðir vöru hér á landi má leyfa því fyrirtæki að nota fánann í auglýsingu á vöru og þjónustu. Það er mjög einfalt. Allt ber að sama brunni varðandi það, við eigum bara að bera virðingu fyrir fánanum. Eftirlitið lýtur að því.

Það eru hins vegar ólíkar skoðanir uppi um þetta mál og ég rakti aðeins forsögu málsins í nefndarálitinu. Fjölmargir hafa reynt að mæta kröfum atvinnulífsins um að mega nota fánann í þeim tilgangi að markaðssetja vöru og þjónustu, til þess að leggja áherslu á sérstöðu og sérkenni íslenskrar framleiðslu í samkeppni. Það hefur ekki tekist. Þess vegna var í allri þeirri umfjöllun, alveg frá 143. löggjafarþingi sem ég hef tekið þátt í starfi nefndarinnar, farin leið málamiðlunar til þess að reyna að fá það fram. Við verðum síðan bara að bíða og sjá hvernig til tekst. Vonandi getum við þá aukið frelsi í lögunum í framhaldinu.