145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

156. mál
[16:07]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Svo virðist sem við hv. þingmaður séum nokkuð sammála um þetta. Ég hef einmitt oft tekið sjálf mið af notkun Dana á þjóðfána sínum og hvernig þeir heimila notkun á honum. Kannski er það barnaskapur af mér að ganga út frá að fólk sýni þjóðfánanum virðingu. Ég hefði þá gert ráð fyrir að ef almenn heimild væri til að nota fánann yrði eitthvert eftirlit haft með því og ef einhver notaði hann á óviðeigandi hátt gripi eitthvert apparat inn í.

Mér heyrist að við hv. þingmaður séum nokkuð sammála í þessu efni. Eins og fram kemur hjá hv. þingmanni framsögumanni málsins er alltaf verið að lina tökin á þessu. Frumvarpið hefur vissulega skánað. (Gripið fram í.) Hingað til hef þó ég ekki getað stutt það sem lagt hefur verið fyrir. Þetta er ekki mál sem skiptir sköpum, en maður hlýtur að velta fyrir sér: Hvað á að gera? Á ég að greiða atkvæði með þessu eða á móti? Þetta er skárra.

En getur ekki verið hætta á því að ef maður tekur ekki allt skrefið festist málið í þessu því reglugerðarfargani sem er? Það er akkúrat það sem ég hef á móti þessu, það er reglugerðar- og lagafargan í kringum þetta mál. Við eigum að treysta íslenskum framleiðendum til að nota íslenska fánann (Forseti hringir.) án þess að sýna honum óvirðingu.