145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

156. mál
[16:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir seinni spurningu hennar um hættuna á því hvort við festumst með þessi skilyrði í lögunum, verði frumvarpið að lögum. Það er auðvitað hárrétt og gott hv. þingmaður bendi á það. En stundum getur verið betra að stíga varlega til jarðar til að ná einhverju fram. Það eru til að mynda neytendasjónarmið að neytandinn geti alltaf gengið út frá því sem vísu að varan sé íslensk. Þá erum við komin að því sem við höfum nú bæði upplifað, ég og hv. þingmaður, í umræðu um umfjöllun nefndarinnar og með hagsmunaaðilum: Hvað er íslenskt? Um leið og við erum farin að tala um einhvern tíma eða hefð erum við farin að setja þessu ákveðinn tíma, eins og birtist í frumvarpinu.

Ég segi: Við verðum að bíða og sjá hvernig atvinnulífið tekur þessu og hvernig þessi heimild verður nýtt. Ég get nefnt sem dæmi hvernig garðyrkjubændur hafa nota fánaröndina. Þeir gera það afar smekklega og hafa farið mjög vel með það. Vonandi verður þetta frumvarp, nái það fram að ganga, til þess að íslensk fyrirtæki og atvinnulífið geti fetað þá leið að nýta þjóðfánann í markaðssetningu á vöru og þjónustu um leið og honum er alltaf sýnd sú virðing sem hann á skilið. Þess vegna styð ég þetta frumvarp alla leið. Við getum þá aukið frelsið í framhaldinu af því.