145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:22]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Við höldum áfram umræðu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak. Þessi umræða hefur staðið um nokkurt skeið, ekki bara í þingsölum heldur ekki síður úti í samfélaginu. Það sem ég hef takmarkaðan tíma, enda um mína seinni ræðu í 1. umr. að ræða, ætla ég aðallega að dvelja við þá staðreynd, sem hefur að vísu verið rædd nokkuð í 1. umr. og er ekki smávægileg, að fram komið frumvarp sem er raunar eitt af stærstu málum Sjálfstæðisflokksins, sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins lagði áherslu á undir umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra og setti í forgrunn pólitískrar stefnu flokksins í upphafi þessa þings, stangast á við stefnu velferðarráðuneytisins í áfengis- og vímuvörnum.

Til þess að ríkisstjórnarflokkar leggi fram mál af því tagi að þau stangist á eða séu þvert á fyrirliggjandi stefnu í viðkomandi málaflokki þarf töluvert tilefni. Nú eru stjórnarflokkarnir í grunninn ekki sammála um málið. Hér hefur komið fram í máli allnokkurra hv. þingmanna í Framsóknarflokknum að þeir eru andsnúnir málinu en svo virðist vera sem megnið af þingflokki Sjálfstæðisflokksins sé því fylgjandi.

Mig langar í þessari stuttu ræðu, af þeim sökum, að dvelja aðallega við fyrsta yfirmarkmið samþykktrar stefnu íslenskra stjórnvalda í áfengis- og vímuvarnamálum. Þessi stefna var samþykkt í desember 2013, undirrituð í velferðarráðuneytinu og studd af hæstv. heilbrigðisráðherra. Fyrsta yfirmarkmiðið er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ein mikilvægasta aðgerðin til að draga úr skaðlegum áhrifum og vandamálum tengdum neyslu áfengis og annarra vímugjafa er að takmarka aðgengi. Það er meðal annars gert með aðhaldsaðgerðum varðandi sölufyrirkomulag áfengis, virkt eftirlit með notkun lyfseðilsskyldra lyfja, öflugri löggæslu og virku tolleftirliti.“

Forseti. Þetta er eitt yfirmarkmið af sex í stefnu núverandi ríkisstjórnar og ég held að megi fullyrða í stefnu meiri hluta á þinginu. Hæstv. heilbrigðisráðherra er jafnframt þingmaður Sjálfstæðisflokksins og ekki hefur komið fram hvort hann styðji framkomið frumvarp og hafi þar með endurmetið stuðning sinn við fyrirliggjandi opinbera stefnu í áfengis- og vímuvarnamálum eða hvort hann er á móti málinu þrátt fyrir áherslu formanns Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra.

Mig langar líka að nefna hér umsögn um frumvarpið frá Rannsóknarstofnun í barna- og fjölskylduvernd. Það er umhugsunarefni nú þegar okkur eru að berast nýjar tölur og upplýsingar um fjölda barna sem líða skort og þeim hefur fjölgað umtalsvert á árunum 2009–2014. Ég hvet Alþingi til að hugsa sérstaklega til þeirra barna sem búa við áfengisböl á sínu heimili. Ég hafa hér eftir Rannsóknarstofnun í barna- og fjölskylduvernd, með leyfi forseta:

„Fulltrúar fjármagns og gróðasjónarmiða hafa haft slík áhrif í samfélagi okkar (Forseti hringir.) undanfarið að þjóðarógn hefur stafað af — og gerir enn. Rökstuðningur fyrir þessu frumvarpi speglar verðmætamat og hagsmunaáherslur sem einkenna þessi sömu markaðsöfl. Hér (Forseti hringir.) má heyra sjónarmið talsmanna óheftrar frjálshyggju og skeytingaleysis um gildi mannauðs og barnaverndar.“