145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:40]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að fá að tala í þessu umdeilda máli, frumvarpi til laga um verslum með áfengi og tóbak. Í ræðu minni ætla ég að tæpa bæði á lýðheilsu sjónarmiðunum sem verið hafa fyrirferðarmikil í umsögnum um frumvarpið, að einhverju leyti á þeim sjónarmiðum sem haldið hefur verið á lofti af fylgjendum þessa frumvarps, sem snúast um valfrelsi og frelsi einstaklingsins til að velja.

Ég held að það sé engum ofsögum sagt að engin fjölskylda sé ósnortin af áfengisbölinu og hafi orðið með einum eða öðrum hætti fyrir því að missa fjölskyldumeðlimi í klóm þess ægilega sjúkdóms sem áfengissjúkdómurinn er. Því tel ég að við þurfum að stíga afar varlega til jarðar þegar við ræðum um þetta frumvarp og að auka aðgengi fólks að áfengi. Mig langar til þess að tæpa hér á sjónarmiðum sem komið hafa fram í umsögnum um frumvarpið og fjalla um lýðheilsumálin. Þar hefur mér þótt umsögn embættis landlæknis vera ansi skýr og skorinorð. Það er ekki löng umsögn þar segir, með leyfi forseta:

„Skaðleg áhrif áfengisneyslu er stórt lýðheilsuvandamál. Aðgerðir sem auka aðgengi að áfengi geta því haft áhrif á heilsu landsmanna til skemmri eða lengri tíma með tilheyrandi auknum kostnaði fyrir samfélagið.“

Landlæknisembættið segir enn fremur í umsögn sinni, með leyfi forseta;

„Á grundvelli bestu fáanlegra gagna og við skoðun á niðurstöðum rannsókna og ráðlegginga frá m.a. Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni um aðgerðir í áfengismálum er takmarkað aðgengi að áfengi ein skilvirkasta leiðin til að sporna við aukinni áfengisneyslu og um leið að draga úr þeim skaða sem getur hlotist af áfengisneyslu.“

Síðan vekur landlæknir athygli nefndarinnar á því að embættinu hafi borist bréf frá Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar þar sem skrifstofan lýsir áhyggjum af mögulegum afleiðingum þess ef einkasala íslenskra ríkisins á áfengi verður aflögð. Í bréfi til landlæknisembættisins kemur fram að mjög líklega muni áfengisneysla aukast, sérstaklega meðal ungs fólks, viðkvæmra hópa og þeirra sem drekka mikið. Í bréfinu eru stjórnmálamenn hvattir til að taka tillit til heilsufars og félagslegra þátta áður en þeir taka ákvarðanir um þær breytingar sem frumvarpið felur í sér.

Þarna finnst mér í raun næg rök hafa komið fram til þess að víkja frumvarpinu frá. Lýðheilsusjónarmiðin eru það sterk gegn málinu þegar við ræðum um aukið aðgengi og dreifðari sölu á áfengi sem landlæknisembættið nefnir hér. Ýmsar rannsóknir styðja það og undir það taka stofnanir sem leggja mikla áherslu á þetta verði ekki gert. Ég staldra aðeins við þá umræðu sem átti sér áðan um að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er ekki viss um að börn eigi að hafa neitt um þetta mál að segja í þjóðaratkvæðagreiðslu. Börn eru oftar en ekki fórnarlömb áfengisdrykkju, þ.e. áfengisdrykkju fjölskyldumeðlima eða fólks í þeirra nánasta umhverfi. Þess vegna langar mig líka til að benda á umsögn Barnaheilla við frumvarpið þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta;

„Aukin áfengisneysla er líkleg til að hafa slæm áhrif á líf barna. Ekki bara barna sem verða fyrir neikvæðum áhrifum af áfengisneyslu foreldra sinna eða forsjáraðila, heldur líka barna og ungmenna sem freistast til áfengisdrykkju vegna auðveldara aðgengis.“

Síðan er vikið að þeim mikla árangri sem náðst hefur með forvarnastarfi hér á landi á liðnum árum og birtist sannarlega í minnkandi áfengisneyslu á meðal unglinga sem stefnt er í hættu ef frumvarpið verður að lögum. Frummælandi frumvarpsins hlýtur nú að hafa áttað sig á því og getur varla hunsað þær umsagnir sem fram hafa komið er varða heill barna og fjölskyldna og lúta að lýðheilsusjónarmiðum.

Ég er satt að segja ansi hugsi og tel það vera í hæsta máta undarlegt hversu mikla áherslu þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt á framgang þessa máls í þinginu. Ég velti því líka fyrir mér hvort frumvarpið sé þá ekki samið í þeim tilgangi að þjóna hagsmunum verslunarinnar og forsendum þeirra og í takt við það offors sem liggur að baki áherslunni á þetta frumvarp og flutning þess á þinginu. Þar komum við líka að hinu sjónarmiðinu sem mig langar til að tæpa á í ræðu minni, þ.e. sjónarmiðinu um valfrelsi, því að flutningsmenn og stuðningsmenn frumvarpsins hafa mikið talað um frelsi einstaklingsins til að velja og að auka aðgang einstaklingsins að áfengi sem neysluvöru. Þeir tala um áfengi eins og hverja aðra neysluvöru þegar allar rannsóknir sýna svo sannarlega að áfengi er ekki eins og hver önnur neysluvara. Öllum er ljóst að aðgengi Íslendinga að áfengi hefur verið ansi gott og greitt hingað til, þ.e. allir Íslendingar 20 ára og eldri hafa jafn greiðan aðgang að áfengi. Ég sé því ekki alveg hvernig núverandi áfengisstefna og sölufyrirkomulag hefur hamlað aðgangi einstaklingsins að áfengi. Síðan hafa flutningsmenn og stuðningsmenn frumvarpsins talað mikið um að Ísland sé nánast eina landið í heiminum þar sem áfengi sé ekki selt í matvöruverslunum, jafnvel þótt öllum sem hafa rannsakað það eða kynnt sér málin sé ljóst að áfengi er ekki selt í matvöruverslunum alls staðar á Norðurlöndunum, og ekki í mörgum ríkjum Bandaríkjanna eða öllum fylkjum í Kanada. Þessi rök standast því ekki. Mig langar líka að benda á að Noregur og Svíþjóð, þar sem aðgengi og sala á áfengi er takmörkuð við útsölubúðir ríkisins, ríkisreknar verslanir, eru þau lönd sem við viljum helst bera okkur saman við þegar kemur að hagsæld, velferð og góðum árangri ef við skoðum það út frá hagfræðinni, og eins varðandi almenn heilsufarssjónarmið.

Þetta eru þau rök sem flutningsmenn frumvarpsins hafa haldið á lofti, þ.e. að sú áfengisstefna sem verið hefur hér við lýði í tugi ára hafi ekki borið árangur vegna þess að aðgengi okkar hinna að áfengi hafi ekki verið nógu mikið og við þurfum því að beita okkur af öllu afli til þess að laga það. Þegar við erum farin að tala um valfrelsi og verslun og hagsmunaaðila í verslun, erum við þá ekki að minnka valfrelsi einstaklingsins og farin að þjóna frelsi einstakra aðila í verslun og koma því á hendur færri aðila þegar kemur að því að selja áfengi út matvörubúðum? Mig grunar sterklega að svo sé. Mér finnst það bera vott um þá rökvillu sem felst í frumvarpinu.

Ég ætla nú ekki að nýta allan þann ræðutíma sem ég hef, en mig langar samt sem áður að tæpa á þeim sjónarmiðum sem fram koma í umsögnum um frumvarpið. Ég nefndi bara tvö sjónarmið sem fjalla um heill barna og barnafjölskyldna og umhverfi barna þegar kemur að áfengisneyslu. Umsögn landlæknisembættisins er mjög skýr; það leggst mjög eindregið gegn því að við breytum stefnu okkar og brjótum ekki sátt um þá áfengisstefnu sem verið hefur um þessi mál á Íslandi í tugi ára. Sú stefna hefur sannarlega borið árangur. Við sjáum að það er minnkandi neysla á áfengi meðal ungmenna. Við sjáum að það meðferðarstarf, sem þó kostar samfélagið gríðarlega mikla fjármuni, hefur borið árangur. Ég ætla ekki að tala um kostnað samfélagsins og ríkisins af áfengisbölinu og áfengisvandamálinu, en hann er svo sannarlega gríðarlega hár. Þó að ég sé ekki með tölurnar á takteinum er kostnaðurinn gríðarlega hár sem íslenska samfélagið hefur borgað í gegnum tíðina vegna áfengisvandamála.

Ég held frekar að við ættum öll sem sitjum hér inni að sameinast um að vinna að því að auka lýðheilsu og lífsgæði fólks hér á landi og taka höndum saman um að vernda börn fyrir skaðlegum áhrifum áfengis, sem svo sannarlega eru til staðar, og setja þessi mál umfram allt ekki í þann búning að verið sé að auka valfrelsi einstaklingsins með því að selja áfengi í matvörubúðum. Svo er svo sannarlega ekki. Við munum þvert á móti minnka frelsi þeirra sem eiga að vera söluaðilar áfengis. Það er nú illa fyrir okkur komið ef við ætlum að tala fyrir frumvarpi sem þessu eins og sjálfstæðismenn hafa verið að gera hér í þinginu trekk í trekk. Þeir vilja varla láta nokkur önnur mál fara frá sér nema þetta tiltekna mál. Við ættum frekar stuðla að því að áfram sé sátt um þá stefnu sem við höfum rekið hér hingað til þegar kemur að áfengi og verslun á áfengi.