145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:53]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Ef ég skil hann rétt þá er hann að beina þeirri spurningu til mín hvort frelsi verslunarinnar sé æðra en frelsi einstaklingsins. Þetta mál snýst vissulega um viðskiptafrelsi og verslunarfrelsi. Það er svo sannarlega hjartans mál Sjálfstæðisflokksins og þingmanna hans eins og margoft hefur komið fram hér í umræðum um frumvarpið. En það stenst ekki skoðun að halda því fram að það skerði einstaklingsfrelsi borgaranna í þessu landi að þeir þurfi að leggja meira á sig til að kaupa áfengi, og þar með að sækja í sérstakar áfengisverslanir, en á við um aðra hefðbundna verslunarvöru. Ef við förum að bera saman frelsi verslunarinnar gagnvart frelsi borgaranna, ef ég skil hv. þingmann rétt, þá er ég á þeirri skoðun að frelsi borgaranna vegi meira en svo að við þurfum að standa hér í ræðustól Alþingis og tala fyrir frelsi verslunarinnar.