145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:54]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var nú meira að spyrja spurningar, hvað hv. þingmanni þætti um þá mismunun innan verslunarfrelsisins að allir aðilar fengju að versla með löglega vöru, ég er ekki að segja venjulega neysluvöru heldur löglega neysluvöru, nema verslunin sjálf. Það er það sem kerfið hér býður upp á, það geta allir verslað með áfengi nema hin almenna verslun.

Ég spyr líka hvort hagkvæmara verslunarform geti ekki verið neytendunum til hagsbóta, öðrum neytendum í versluninni. Ég tek það fram að hvergi í frumvarpinu eru matvöruverslanir skyldaðar til að selja áfengi heldur er um að ræða almennar verslanir sem hafa algjört frelsi til að versla með þessa vöru eða ekki. En ef verslun getur rekið sig á hagkvæman hátt eru ekki meiri líkur á að hægt verði að bjóða neytandanum aðra almenna neysluvöru í versluninni á hagkvæmari hátt?