145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarpið sem hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og hæstv. ráðherrum hans, þar á meðal formanni Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, finnst vera forgangs- og frelsismál. Ég leit inn á vefsíðuna endurreisn.is þar sem er verið að safna undirskriftum til þess að skora á löggjafarvaldið og fjárveitingavaldið að leggja meira til heilbrigðiskerfisins til þess að bregðast við þeim vanda sem þar er núna. Það eru mánaða og jafnvel ára biðlistar, frú forseti. Það er skelfilegt ástand á sumum sviðum í heilbrigðiskerfi okkar sem er fólkinu í landinu hjartans mál. Við þurfum að leggja enn meira í á næstu árum og gera enn betur til þess að bregðast við ástandinu eins og það er. 48.926 voru búnir að skrifa undir áskorunina þegar ég leit á síðuna rétt áðan.

Með því frumvarpi sem við ræðum hér og er þetta mikla forgangsmál hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, og einstökum öðrum hv. þingmönnum en þarna er þunginn mestur, er verið að leggja til aukið aðgengi, mun meira aðgengi að áfengi sem allar rannsóknir sýna, allar, að mun aðeins leiða til aukinnar neyslu. Aukin neysla þýðir aukið álag á heilbrigðiskerfið. Og ekki bara á heilbrigðiskerfið, heldur einnig á löggæsluna. Þetta er undarleg hugsun, frú forseti, og ég lít þannig á að með þessu frumvarpi sé beinlínis farið gegn vilja fólksins í landinu. Það hefur enginn kallað eftir því nema flutningsmennirnir sjálfir og einstaka forsvarsmenn stórra verslana. En það mun hafa alvarleg áhrif ef það verður samþykkt.

Frú forseti. Frumvarpið hefur ekki verið metið út frá hag barna eins og við hér höfum þó undirgengist að gera með því að skrifa undir barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það mun einnig hafa áhrif á kynbundið ofbeldi. Ég vil líka nefna rannsóknir þar sem fjallað er um hvernig draga megi úr lífsstílssjúkdómum, þar á meðal lækka tíðni krabbameina. Eitt af því er að hefta aðgengi að áfengi vegna þess að áfengi veldur krabbameini ef neyslan er of mikil, alveg frá koki og niður í endaþarm. Allar rannsóknir segja að það sem helst hefur áhrif á neyslu áfengis er aðgengi og hvað það kostar.

Tíminn líður hratt, frú forseti. Mig langar í lokin að benda á rannsókn sem var gerð á áhrifum þess að hætta sölu á miðlungssterkum bjór í matvöruverslunum 1977 í Svíþjóð. Þarna höfum við nefnilega samanburð. Niðurstaðan var sú að hefði miðlungssterkur bjór ekki verið seldur í matvöruverslun á árunum 1965–1977 hefði neysla áfengis verið 15% minni. Áfengisneysla einstaklinga var 8% minni á árinu 1979 miðað við árið 1977, tveimur árum eftir að þessu var hætt. Dauðsföll og veikindi af völdum áfengisneyslu minnkuðu umtalsvert á árunum 1978–1984, sérstaklega meðal ungmenna. Tíðni skaðsemi af völdum áfengis var mun hærri þegar miðlungssterkur bjór var til sölu í matvörubúðum. Tíðni skorpulifur var sérstaklega há yfir tímabilið sem miðlungssterkur bjór var leyfður í matvöruverslun. Umferðarslysum fækkaði um 15% meðal 10–19 ára, 39–40 ára og 60+ eftir 1977. Þarna erum við með samanburðarrannsókn.

Frú forseti. Ég vil hvetja hv. þingmenn þegar þeir afgreiða (Forseti hringir.) frumvarpið að líta til rannsókna, læra af reynslu annarra og vera ekki að draga enn meiri vanda yfir bæði (Forseti hringir.) löggæslu og heilbrigðiskerfi og auka á samfélagsvanda með því að samþykkja þetta (Forseti hringir.) arfavitlausa frumvarp.