145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

almenn hegningarlög.

11. mál
[17:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og ég tek undir að mér finnst þetta ljómandi gott frumvarp, þ.e. tilgangur þess.

Nú er það svo eins og þingmaðurinn benti á að það er ár síðan frumvarpið var lagt fram og hér kýs hún að leggja það fram og hennar þingflokkur óbreytt. Málið var sent út til umsagnar og fékk umsagnir síðast og mig langar að spyrja út í nokkra hluti sem þar koma fram og hvers vegna þingmaðurinn ákvað að taka þær ekki inn í frumvarpið af því að ég heyri að hún hefur átt samtöl við lögfræðinga sem snúa m.a. að því að sameina betur þessar tvær greinar frumvarpsins.

Í fyrsta lagi bendir lögreglustjórinn á Suðurnesjum á að það sé æskilegt að í 1. gr. komi fram að ekki megi breyta ljósmyndum eða öðru sambærilegu efni, t.d. að skeyta saman mynd af búk eins og andliti annars. Telur hv. þingmaður að það sé eitthvað sem henni hugnist að verði gerð breyting á, fyrst að hún kaus að breyta því ekki núna?

Síðan langar mig að spyrja líka um hugtakið hefndarklám. Frá Kvenréttindafélagi Íslands kom tillaga um að kalla þetta hrelliklám og Jafnréttisstofa tók undir það og Mannréttindaskrifstofa Íslands tók undir að það væri vont að skilgreiningin festist við hugtakið hefnd. Þetta væri frekar í ætt við hrelliklám en hefndarklám af því að þetta þarf ekki að snúast bara um það að einhver sé að hefna sín. Getur þingmaðurinn tekið undir það? Mundi hún vilja sjá þá breytingu á frumvarpinu?