145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

almenn hegningarlög.

11. mál
[17:34]
Horfa

Flm. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þetta andsvar. Ég er hrædd um að við séum ekki með alveg rétt skjal því að ég var búin í fyrra að setja inn klausu um samsettar myndir. (Gripið fram í.) Þannig að þetta er einhver mistök. Þetta kom fram í fyrstu málsgrein held ég alveg örugglega í greinargerðinni. Þannig að þetta eru einhver smámistök sem við hljótum að geta lagað.

Varðandi heitið á frumvarpinu þá er það ekkert heilagt í mínum huga að þetta heiti hefndarklám. En nú er það þannig að við erum að fjalla um hlut sem heitir „revenge porn“ á ensku og það er alveg klárt að við erum að tala um sama hlutinn. Hrelliklám finnst mér pínulítið veikara orð ef ég á að segja alveg eins og er. En ég tek það líka fram og hef gert í ræðum mínum að hefndin sem slík er ekki endilega til staðar í öllum tilfellum, sérstaklega ekki hjá þeim sem þekkir ekki viðkomandi en dreifir myndefninu áfram, það er auðvitað ekki hefnd hjá þeim sem hefur sem sagt ekki póstað heldur er að dreifa myndefninu.

Þetta er ekkert stórmál í mínum huga en mér finnst persónulega hefndarklám vera sterkara orð og mér finnst að það þurfi að halda í að þetta sé alvarlegt mál. Það að hrella einhvern er einhvern veginn ekki eins sterkt. En mér finnst alveg mega skoða þetta.