145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

almenn hegningarlög.

11. mál
[17:45]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var reyndar ekki einungis að hugsa um þá sem eru leiðinlegir á netinu heldur þá alvarlegu tilhneigingu sem er stundum í orðræðunni, sérstaklega gagnvart konum. Það er það sem má kalla kynferðislega áreitni í orðræðu, þegar farið er út í sára og persónulega hluti sem eru beinlínis settir fram með kynferðislegum hætti til að niðra þann sem við er rætt. Það er hægt að niðurlægja fólk á kynferðislegan hátt með fleiru en samsettum myndum og myndbirtingum. Orðræðan getur oft orðið mjög erfið og ágeng.

Þetta var aðallega heimspekileg vangavelta því að grundvallaratriðið er að við erum ekki komin lengra en svo að við erum með þetta frumvarp núna, sem miðar beinlínis að því að hægt verði að taka á og ná utan um hefndar- og hrelliklám. Það er skref sem við höfum ekki stigið enn en skulum stíga til að byrja með.

Ég hlakka til að fá að leggja þessu máli eins gott til og ég get í allsherjar- og menntamálanefnd því að málið er mjög þarft. Ég ítreka þakkir mína til flutningsmanna þessa þingmáls, að gera aðra atlögu að því. Ég vona að þær þurfi ekki að verða fleiri.