145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

almenn hegningarlög.

11. mál
[18:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að leggja aftur þetta frumvarp fram. Við ræddum það eitthvað á síðasta þingi og munum gera aftur.

Það er vissulega vandamál við 233 gr. b í almennum hegningarlögum. Greinin var greinilega ekki hugsuð fyrir hrelliklám og hugsuð í miklu víðara samhengi og eins gerir hún einungis fyrri maka ábyrga.

Ég hef ekki mjög mikinn tíma til að ræða það atriði hér en hef þó talsvert að segja þannig að ég ætla að leyfa þeim ágætu ræðum sem hér hafa verið fluttar duga til þess að fara yfir það mál.

Það má árétta að þetta er í sjálfu sér ekki ný tegund brots, það sem er nýlegt er hversu auðvelt er að fremja það, sem þýðir að vandinn hefur stækkað mjög mikið í kjölfar upplýsingatæknibyltingarinnar. Það er vissulega ein af skuggahliðum hinnar hröðu tækniþróunar.

Það er freistandi þegar kemur að þessum málaflokki og þessari tegund af brotum að vilja að stöðva þau og vona að vandamálið fari bara í burtu einhvern veginn, en eðli upplýsinga er ekki þannig. Það er ekki siðferðislegt mat heldur tæknilegur raunveruleiki. Því fjær sem löggjöfin er tæknilegum raunveruleika því líklegri verða lagalegar aukaverkanir en jafnframt aukast líkur á því að lögin nái ekki tilætluðum árangri.

Ég vil að þetta frumvarp virki, verði það að lögum. Ég vil að það sé raunhæft. Ég vil að það dragi raunverulega úr og helst útrými hrelliklámi. Því kem ég hér með allnokkra og alfarið uppbyggilega gagnrýni á málið sem er eingöngu hugsuð til að bæta það og láta það virka.

Ég byrja á skilgreiningum vegna þess að þær þvælast oft fyrir, sér í lagi þegar klám ber á góma. Ég ætla að skilgreina fyrst 3,5 hugtök:

Klám: Beinskeytt sýning eða tjáning kynferðislegs efnis í þeim beina tilgangi að valda kynferðislegum losta.

Heimaklám: Hið sama, gert af áhugafólki, jafnan í heimahúsi.

Hrelliklám eða hefniklám: Klámefni sem eingöngu er ætlað mjög þröngum hópi, gjarnan einungis þeim sem í því birtast eða mjög nánum aðilum.

Þegar kemur að frumvarpinu hef ég það að athuga við 2. gr. að hún er of víð að mínu mati og bannar dreifingu á alls kyns efni sem kemur í sjálfu sér kynferði, klámi eða hrelliklámi ekkert við. Mér finnst hún aðeins of víð og sé ekki alveg ástæðu til að hafa þetta í tveimur greinum. Ég held að ein grein mundi duga.

Í því sambandi mundi ég leggja til að við höldum okkur við það sem við höfum við verknaðinn að athuga. Það er jú að þetta er brot á friðhelgi einkalífsins annars vegar og hins vegar að þetta er brot á kynfrelsi, með öðrum orðum kynferðisbrot.

Stundum er rætt um að þetta sé líka smánun eða eitthvað því um líkt. Gott og vel. Það er ágætt að aðrir tali um það. Mér er hins vegar illa við að hafa það með vegna þess að ég lít ekki á nekt, kynlíf eða klám sem niðrandi í eðli sínu. Mér finnst kynlíf bara ekkert vera niðrandi. Mér finnst það vera álitamál og mér finnst það ekki vera aðalatriðið.

Aðalatriðið fyrir mér er þetta tvennt: Friðhelgi einkalífsins sem brotið er á og kynfrelsið einstaklingsins sem er brotið á. Jafnvel ef um er að ræða tiltölulega sakleysislega og mjög fallega nektarmynd sem enginn mundi skammast sín fyrir venjulega er það samt brot á friðhelgi einkalífsins og það er samt brot á kynfrelsi, þótt efnið sé í sjálfu sér ekki niðurlægjandi eða smánandi. Þess vegna nálgast ég efnið út frá þessum tveimur vinklum.

Frumvarpið leggur til viðbætur; annars vegar 229. gr. a og hins vegar 210. gr. c. 210. gr. án bókstafa er hið víðfræga og að mínu mati forneskjulega og nær einstaka klámbann, sem viðgengst eiginlega ekki lengur í vestrænum frjálslyndum lýðræðisríkjum. Það er orðið mjög fágætt og við erum orðin hálfkjánaleg á alþjóðavísu þegar kemur að því að vera enn þá með klámbann hér. En klám er, eins og fyrr greinir, ekki endilega niðrandi í eðli sínu. Það er bara kynferðislegt efni sem sett er fram í þeim beina tilgangi að valda kynferðislegum losta.

Í því samhengi mun ég leggja til að í stað þess að koma með 210. gr. c þá komi sú grein hreinlega í staðinn fyrir núverandi 210. gr. þannig að nýja greinin fái að njóta sín sem tilgangsrík grein og lögmætt bann við einhvers konar klámefni, nefnilega hrelliklámi. Það er hugmynd sem ég hvet fólk til að íhuga. Þá mundum við í leiðinni losna við þessa bölvuðu 210. gr. sem er Íslandi til skammar, fullyrði ég, en veit að ýmsir hérna eru ósammála mér í því. En ég fullyrði það. Hún er til skammar.

Sömuleiðis vil ég nefna í sambandi við 210. gr., klámbannið, að ég sé mótsögn í því að taka ábyrgðina af höndum fórnarlamba hrellikláms og setja hana á dreifendur hrellikláms vegna þess að samkvæmt 210. gr. er fórnarlamb hrellikláms lögbrjótur. Fórnarlamb hrellikláms brýtur 210. gr. Það felst drusluskömm í 210. gr. Það er meðal annars þess vegna sem ég er svo hrikalega á móti henni, fyrir utan það auðvitað að hún er ekki í neinum takti við nútímann.

Þetta er það sem ég hef að segja um 210. gr., staðsetningu greinarinnar í frumvarpinu og samhengið við klámbannið.

Annað sem ég hef við frumvarpið að athuga er að mér finnst það gera einn áhorfanda óafvitandi ábyrgan fyrir einhverju sem hann getur ekki verið ábyrgur fyrir. Það er hvergi nærri alltaf augljóst hvort klámefni er dreift í þökk þess sem fram í því kemur eða ekki. Áhorfandinn hefur í raun og veru litlar eða engar forsendur til að meta það af handahófskenndum vefsetrum á netinu nema auðvitað að hann hafi um það beinar upplýsingar, sem ég fullyrði að sé sjaldnast tilfellið þegar kemur að hrelliklámi, og í því felst meðal annars hryllingurinn við fyrirbærið.

Mér finnst að ábyrgðin eigi að vera ríkari því nær sem dreifandinn eða notandinn er fórnarlambinu. Það þarf að nýta þau tækifæri sem bjóðast til að finna hinn ábyrga. Það lít ég á sem lykilhlutverk í því að láta lögin virka, þ.e. að það sé tiltekinn aðili í afbrotinu sem hægt er að gera ábyrgan, ekki bara lögformlega heldur líka á raunhæfan hátt með lögreglurannsóknum og þeim tækjum sem framkvæmdarvaldið hefur til þess að rannsaka glæpi og saksækja fyrir þá.

Stundum er mjög augljóst hver afbrotamaðurinn er, til dæmis í samböndum. Ég tala nú ekki um þegar beinlínis er búið að hóta dreifingu. Yfirleitt er efnið þess eðlis að því er dreift til afskaplega fárra aðila, yfirleitt bara eins aðila. Það er hægt að gera þann aðila ábyrgan. Stundum er efninu dreift til aðeins fleiri aðila, þá vandast auðvitað rannsóknin en hægt er að gera þá aðila ábyrga. Mér finnst skynsamlegast að hafa ábyrgðina meiri því nær sem brotið er þeim sem fyrir því verður.

Það er raunverulega hægt að rannsaka tölvuglæpi. Jafnvel þótt það sé að sumu leyti erfiðara er það líka á suman hátt auðveldara. Ef myndinni er dreift í gegnum Facebook eða tölvupóst eða einhvers konar forrit er oft hægt að rannsaka það. Hægt er að komast að því hvaða IP-tölur eru fyrir hendi. Stundum eru þær skráðar á nöfn eða hvað eina, það er auðvitað allur gangur á því.

Þetta er eins og bara í raunveruleikanum almennt að aðstæður eru misjafnlega góðar til þess að rannsaka glæpi. En það er hægt að rannsaka tölvuglæpi og þeir eru rannsakaðir, þeir eru upplýstir og það er sakfellt fyrir þá. Mér finnst mikilvægt að við höldum í leiðir sem gera þannig aðferðir raunhæfar.

Ég tel að frumvarpið eins og það stendur núna sé það vítt og leggi það ríka áherslu á þann sem sér efnið einhvers staðar eða dreifir því einhvers staðar út í bæ án þess að hafa hugmynd um af hverjum efnið er eða hvort það er í hans þökk, geri það að verkum að það sé ekki raunhæf leið til þess að rannsaka og sakfella fyrir þau brot, sem ég mundi líta á sem mjög alvarlegt vandamál við löggjöfina. Það þarf nefnilega að byggja á aðferðum sem veita lögregluyfirvöldum færi á að rannsaka málið.

Ef löggjöfin sem skilgreinir brotið er í eðli sínu í miklu misræmi við raunveruleikann er hætt við að lögin verði ekki framfylgjanleg og að þau missi marks. Það vil ég allra síst að gerist í þessu annars góða frumvarpi.

Enn eitt sem ég hef við að athuga er að mér finnst frumvarpið ekki setja næga ábyrgð á hendur þeim sem hafa efnið löglega undir höndum, þ.e. með samþykki þess sem birtist í efninu, vegna þess að viðkomandi getur alltaf borið fyrir sig, og stundum með réttu, að efninu hafi verið lekið á netið, að einhver hafi hakkað tölvuna eða stolist í hana þegar viðkomandi sá ekki eða eitthvað því um líkt. Ég ímynda mér að brotlegir menn mundu bera slíkt fyrir sig og að það væri mjög erfitt að afsanna það.

Mér þykir því mikilvægt að um leið og viðkomandi fær efnið í hendurnar eða inn á tölvuna, eða hvernig sem það er, sé hann strax orðinn ábyrgur fyrir því áður en hann dreifir því. Hann öðlist þá einhvers konar hlutlæga ábyrgð. Það helst í hendur við að hann á að vita að um persónulegt efni er að ræða.

Ég tel að hægt sé að framfylgja því og að það mundi jafnvel gefa mun skýrari skilaboð til fólks, þ.e. þegar það fær svona efni í hendurnar á það að fara varlega með það, ekki bara að sleppa því að dreifa því til vina. Það á að fara varlega með það almennt. Það á að passa að það fari ekki í dreifingu. Fólk ber ábyrgð á því jafnvel þótt einhver annar sé vondi karlinn, því að markmiðið hlýtur jú að vera það að draga úr svona brotum eftir fremsta megni.

Ég lít svo á að snyrtilegasta leiðin sé að búa til hlutlæga ábyrgð á hendur þeim sem hefur efnið undir höndum sem veit að það er persónulegs eðlis. Sömuleiðis mundi sú ábyrgð flytjast yfir til annarra sem vita eða ættu að vita að það er persónulegs eðlis. Þá væri hægt að gera menn ábyrga fyrir dreifingu þess hvort sem það er gert vísvitandi eða af alvarlegu gáleysi.

Ef við færum þá leið ætti líka að þyngja refsingar talsvert, úr þessum einu til tveimur árum upp í sex ár í það minnsta að mínu mati, jafnvel átta, vegna þess að ég tel að lögregla þurfi að hafa lagalegar forsendur til þess að rannsaka þessi mál af alvöru. Til þess þarf að nálgast vandamálið frá réttum vinkli og í samræmi við tæknina og svo framvegis. En það þarf líka að vera forgangsmál og að lögreglan telji það skynsamlega forgangsröðun í ljósi þess um hversu alvarlegan glæp sé að ræða.

Ef ég ætti að orða þetta í einni setningu þá legg ég til að ábyrgðin myndist um leið og einhver fær efnið til sín sem treyst er fyrir því, þá þarf strax að huga að ábyrgðinni, frekar en þegar efnisins er neytt af einhverjum þriðja óviðkomandi aðila sem ekkert veit, eða þegar það kemst fyrst í dreifingu. Ég tel að sú nálgun í frumvarpinu sé vel hugsuð og gott að byrja að ræða málið þar. En ég tel að við þurfum að huga að ábyrgðinni löngu áður en efnið er komið í dreifingu og áður en einhver er farinn að horfa á það. Ábyrgðin þarf að myndast strax, hún þarf að vera skýr frá upphafi og hún þarf einnig að gilda um aðila áður en þeir gerast brotlegir við lögin. Þeir þurfa að öðlast hina hlutlægu ábyrgð að mínu mati.

Ég hef ekki fleira um þetta mál að segja að sinni en eins og ég segi er öll mín gagnrýni á málið uppbyggileg og ég vona innilega að það fái afgreiðslu á Alþingi. Ég tek undir orð hv. þingmanns í þeirri von að þetta verði ekki hluti af einhverjum „vílum og dílum“ eða hvernig sem menn vilja orða það hérlendis, heldur komist það í gegn vegna þess að þetta er vandamál sem við þurfum að leysa.