145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:49]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki hefur verið fyrirhugað að gera breytingar á lengd atvinnuleysistímabilsins þannig að ekki er gert ráð fyrir því á þessu þingi né hef ég í hyggju að koma með frumvarp sem tengist breytingum á því tímabili. Hvað varðar tölulegar greiningar er það rétt, eins og hv. þingmaður kemur að, að dregið hefur úr fjölda þeirra sem fá fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Það hefur meðal annars verið, eins og fram hefur komið hjá sveitarfélögunum, vegna þess að menn hafa verið að setja skilyrði fyrir fjárhagsaðstoðinni, hafa verið að setja upp verkefni sem eru unnin í samstarfi við Vinnumálastofnun.

Ég tel hins vegar mjög mikilvægt, og það hefur ítrekað komið fram að undanförnu í ýmsum málum, að löggjafinn setji skýr skilyrði og skýran lagaramma um þá stjórnarskrárvörðu og lögbundnu aðstoð sem fólk á rétt á, það hefur verið þannig hvað varðar lög um félagsþjónustuna og fjárhagsaðstoðina að þau skilyrði hafa ekki verið skýr. Sveitarfélögin hafa þar af leiðandi, þegar ráðuneytið hefur gert athugasemdir við það, óskað eftir því að lagaramminn yrði lagaður sem við erum að gera hér.

Varðandi útfærsluna vil ég bara óska eftir því að nefndin fari enn á ný vel yfir það hvernig hún telur rétt að ramma þetta skýrar af varðandi heimildir sveitarfélaganna til að skilyrða fjárhagsaðstoðina og eiga þá líka gott samtal við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað það varðar.

Varðandi lögfræðiúttektina: Nei, hún hefur ekki verið sérstaklega unnin, en að sjálfsögðu væri ég ekki að mæla með máli sem ég teldi stangast á við stjórnarskrána. Það eru einmitt dómar sem hafa fallið að undanförnu þar sem verið er að krefjast þess að löggjafinn setji skýr skilyrði og reglur um aðgang og takmarkanir á réttindum fólks.