145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég hefði talið eðlilegt að eftir umræðuna á síðasta þingi um þetta mál, og fjölmargar umsagnir sem lýstu yfir áhyggjum, hefði verið fengið lögfræðiálit um hvað fælist í réttindum fólks til framfærslu samkvæmt stjórnarskrá. Um þetta eru nokkrar línur í greinargerð með frumvarpinu og það truflar mig. Ég treysti því að samkvæmt hyggjuviti hæstv. ráðherra þá stangist þetta ekki á við stjórnarskrá en það dugir mér ekki. Ég vil fá rökstutt álit þar um.

Ég harma líka að ekki sé verið að lengja atvinnuleysistímabilið sem er réttindakerfi tengt þátttöku á vinnumarkaði og í vinnumarkaðsaðgerðum. Það hefði verið hinn eðlilegi farvegur fyrir þetta og skrýtið að byrja ekki á þeim enda; að byrja á því að draga úr réttindum fólks í því kerfi og fara síðan að skilyrða fjárhagsaðstoðina.

Mörg sveitarfélög hafa verið að beita skilyrðingum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða aðgerða hefur ráðuneytið gripið til til að vernda hagsmuni þess fólks sem sveitarfélögin eru að skilyrða? Ef það er svo, sem flestir telja, að þau séu að ganga á svig við lögin, af hverju finnst ráðherra þá sjálfsagt að breyta lögunum (Forseti hringir.) en gera ekki alvarlegar athugasemdir við framkvæmd sveitarfélaganna innan þess lagaramma sem nú gildir?