145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:53]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í fyrra svari mínu til hv. þingmanns þá tel ég mjög mikilvægt að velferðarnefnd fari yfir þann ramma sem við leggjum hér til.

Ég vil þá aftur vísa til álita sem hafa komið frá umboðsmanni Alþingis og dóma sem hafa verið að falla, þar á meðal í nýlegu máli sem snýr að Túlkasjóðnum þar sem verið er að vísa til, á grundvelli 76. gr. stjórnarskrárinnar, þeirrar frumskyldu sem lögð er á Alþingi að það taki afstöðu í formi löggjafar til þess hvaða rétt menn skuli eiga til félagslegrar aðstoðar af hálfu hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga.

Það hefur komið fram að ákvæðin í núverandi löggjöf séu ekki nógu skýr. Það hefur verið óskað eftir því að skýra þann ramma og þannig að tryggt sé að menn séu þá að vinna innan þeirrar frumskyldu sem talað hefur verið hér um. Hér er verið að leggja til ákveðna leið hvað það varðar. Því til viðbótar þar sem áherslan er náttúrulega, og það endurspeglast að vissu leyti í framsögu minni þar sem talað var um að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi.

Sumir af þeim skjólstæðingum sem eru hjá sveitarfélögunum og fá fjárhagsaðstoð hafa ekki unnið sér inn neinn rétt í atvinnuleysistryggingakerfinu. Hérna erum við hins vegar að huga að því að búa til ákveðinn lagaramma utan um samstarf sveitarfélaganna og Vinnumálastofnunar til að hægt sé að tryggja að þeir geti líka veitt þeim aðstoð.

Þetta endurspeglast síðan í þessari grunnpólitísku sýn minni að það sé mjög mikilvægt að við hjálpum fólki eins og hægt er til að hjálpa sér sjálft. Það hefur einfaldlega sýnt sig að það skilar árangri, að hjálpa fólki.