145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:00]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er greinilegt að við hæstv. ráðherra lítum þetta mál ansi ólíkum augum. En það er annað sem kemur fram í textanum sem fylgir frumvarpinu og var raunar eitt af því sem einnig var talsvert rætt í hv. velferðarnefnd á síðasta ári. Það eru einmitt upplýsingar um hversu mikið sé verið að beita þessum skerðingum. Hér kemur fram að ekki liggi fyrir gögn um hversu algengt það er að fjárhagsaðstoðin sé látin niður falla.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Var eitthvað gert sérstaklega í því á milli þinga að biðja sveitarfélögin um að fara í gegnum þetta hjá sér, að kalla þær upplýsingar fram til að betur væri hægt að átta sig á þeim hópi, til að mynda hversu mörg börn eru á heimilum sem verða núna fyrir skerðingum? Ég held að rosalega mikilvægt sé að við hér inni áttum okkur á því að auðvitað hefur frumvarp sem þetta, verði það að lögum, áhrif á fjölda barna. Þess vegna er alveg gríðarlega mikilvægt að spá sérstaklega í áhrifin á börnin.

Svo langar mig líka að spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að hún minntist á það í fyrirspurnatíma í fyrradag að ekki mætti gleyma því að almannatryggingakerfið sé eitt af nokkrum kerfum sem saman mynda íslenska velferðarkerfið og talaði þar um hlutverk sveitarfélaga að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi íbúa sinna.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Telur hún (Forseti hringir.) að það sé nógu sterkt almannatryggingakerfi ef fólk (Forseti hringir.) fær ekki tryggingavernd í almannatryggingakerfinu og svo er líka hægt (Forseti hringir.) að skerða það út af þeirri grunntryggingu sem (Forseti hringir.) er í hlutverki sveitarfélaganna?