145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

áhrif kjöt- og mjólkurframleiðslu á loftslagsbreytingar.

[16:16]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þessa umræðu hér í dag og fagna því að hæstv. ráðherra sé jákvæð gagnvart spurningum þingmannsins þó að ég óski eftir aðeins skýrari yfirferð yfir þessa vegvísa og hvað eigi að koma út úr því. Baráttan við hlýnun jarðar er fjölþætt og flókin og krefst þess að við sem búum í ríkustu ríkjum heimsins tökum á okkur skuldbindingar umfram önnur.

Samkvæmt skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, frá árinu 2006 er hlutur kjötframleiðslu í útblæstri gróðurhúsalofttegunda 18%, sem er meira en allar samgöngur heimsins til samans eins og fram hefur komið. Hér á Íslandi lítum við yfirleitt mest til bílaflotans og skipaflotans þegar við ræðum losun, en framleiðsla á kjöti og mjólk hefur fengið sáralitla athygli. Við verðum að muna að ræktun dýra er gríðarlega mikilvægur hluti af mataröryggi fátækasta hluta heimsins og gróðurhúsaáhrifin munu einnig koma helst niður á þeim hópi þannig að óhófleg kjötneysla og framleiðsla á Vesturlöndum hefur þannig áhrif á þá efnaminnstu.

Ég mundi því vilja að ráðherra færi yfir það með okkur hvort í samstarfinu með Bændasamtökunum verði ekki einmitt farið yfir einstakar greinar og einstakar framleiðsluvörur og metið út frá því hvernig Ísland ætlar að móta áherslur sínar í landbúnaði þannig að við leggjum af mörkum það sem við getum til að draga úr losun.