145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

áhrif kjöt- og mjólkurframleiðslu á loftslagsbreytingar.

[16:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að þetta er umræða sem ég mundi frekar vilja hlusta meira á en að tala kannski mikið um vegna þess að ég er langt frá því að vera sérfræðingur um efnið. Hins vegar þykir mér þetta mjög áhugaverð umræða vegna mikilvægis þess að takmarka loftslagsbreytingar af mannavöldum eins og frekast er unnt.

Að mínu mati finnst mér umræðan stundum fara of mikið út í það að við þurfum að takmarka neyslu, þótt það sé vissulega hluti af lausninni, eins og stundum með orku og því um líkt og minna um það að nýta tækni, nýta leiðir til þess að draga úr vandanum vegna þess að ég sé ekki að margir milljarðar mannkyns muni bjóða sig fram til að hverfa og ég held að fólki muni halda áfram að fjölga, þess vegna muni neyslan ávallt fara upp á við, jafnvel þótt við drögum úr neyslu á hvern einstakling.

Af því leiðir að mínu mati að við þurfum að ígrunda fyrst og fremst nýjar leiðir til þess að nýta hluti eins og metan eða jafnvel koltvísýring upp að því marki sem það er mögulegt eða koma með öðrum leiðum í veg fyrir að þessi efni sleppi út í andrúmsloftið.

Ég hef þó eitt að segja sem ég er pínulítið hissa á að enginn hafi nefnt enn þá, kannski vegna þess að fólki finnst það pínulítið ógeðfellt, en það eru hugmyndir um að nota krybbur til prótínframleiðslu, þ.e. ekki endilega kjöt. Margir binda vonir við það að í framtíðinni verði vestrænt samfélag mun opnara fyrir slíkum mat. Fólk sem hefur sérstakar áhyggjur af hlut landbúnaðar í matvælaframleiðslu bendir oft á að með krybbunum fáist mjög mikil prótínframleiðsla en úrgangur sé mjög lítill og umhverfisspjöll lítil. Það er í raun og veru aðallega viðhorf fólks gagnvart matvælunum sem hindrar það í að borða þetta. Ég get sagt það að ég prófaði nýlega einhvers konar krybbuorkustykki og ég er reyndar ekkert almennt fyrir þannig lagað, en ég verð að segja að það bragðaðist ágætlega og mér leið alls ekkert ógeðslega.