145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

áhrif kjöt- og mjólkurframleiðslu á loftslagsbreytingar.

[16:25]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún skiptir máli og þetta er mál sem vísar inn í framtíðina. Við áttum mjög góða umræðu í gær um Parísarráðstefnuna og loftslagsmálin. Þar ræddi ég aðeins notkun okkar mannanna á landsins gæðum, ef svo má segja. Oft er talað um að það þurfi þetta margar jarðir til að standa undir neyslu okkar og þetta margar jarðir til að standa undir neyslunni ef þetta margir færist frá fátækt upp í millistétt o.s.frv. Málið er auðvitað svo einfalt að þessi eina jörð verður að duga okkur.

Það er engin spurning að í hnattrænu tilliti og jafnvel í okkar litla gjöfula landi þurfum við að mæta vistspori kjötframleiðslunnar fyrr eða síðar. Það er strax orðið stórt vandamál víða erlendis hversu vatnsfrek framleiðsla á kjöti er, en einnig hve mikill kraftur fer í að rækta fóður fyrir dýr sem verða síðan að kjöti. Það er engin spurning að við sem einstaklingar þurfum að meðaltali að breyta hegðun okkar og minnka kjötneyslu, alla vega þessa miklu kjötneyslu okkar sem búum við velmegun á jörðinni.

Mér finnst mikilvægt að við nálgumst þetta mál af opnum hug. Við gerum það bæði með því að skoða fjölbreytni í fæðu, en einnig með því að beita bæði upplýsingum og þrýstingi til að gera neytendum auðveldara að hegða sér á skynsamlegan og ábyrgan hátt.