145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

áhrif kjöt- og mjólkurframleiðslu á loftslagsbreytingar.

[16:30]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Nú á árinu 2016 tala margir um veganúar, þá er fjöldi fólks sem hefur ákveðið að borða ekki dýraafurðir. Þar koma til ýmis sjónarmið, en þar eru sterkust dýravelferð og síðan ábyrg afstaða vegna hlýnunar jarðar og gróðurhúsaáhrifa af kjöt- og mjólkurframleiðslu. Þessi umræða er því vel tímasett í veganúar.

Á sama tíma og vaxandi hópur er að breyta neyslumynstri sínu eykst kjötneysla í heiminum. Þó að dregið hafi úr lambakjötsneyslu á Íslandi er neysla kjúklinga og svínakjöts að aukast mikið þvert á leiðbeiningar landlæknis um hollt mataræði. Í nýjustu viðmiðunum er sérstaklega bent á að mikil neysla á rauðu kjöti auki líkur á krabbameini í ristli og þyngdaraukningu.

Við hér á Íslandi flytjum líka inn dýrafóður með miklum tilkostnaði til að rækta dýr og mikill hluti þeirrar framleiðslu fer í unnar kjötvörur sem landlæknir varar nú mjög við vegna heilsuspillandi áhrifa. Við getum hugað að því núna þegar við eigum að fara í það að greina áhrifin af landbúnaðarframleiðslu á loftslag og nýta það til að móta umhverfisvænni og heilsusamlegri stefnu.

Ég vil spyrja hvort hæstv. ráðherra telji ekki skynsamlegt að fara yfir það hvort eitthvað af því opinbera fjármagni sem fer til kjötframleiðslu á Íslandi í dag verði nýtt til að styðja betur við framleiðslu á íslensku grænmeti, berjum og ávöxtum.