145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

áhrif kjöt- og mjólkurframleiðslu á loftslagsbreytingar.

[16:32]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir að óska eftir sérstakri umræðu um áhrif kjöt- og mjólkurframleiðslu á loftslagsbreytingar, enda fyrir löngu afar þörf umræða, sér í lagi nú í kjölfar samkomulagsins á Parísarráðstefnunni um aðgerðir þjóða til að sporna gegn loftslagsbreytingum.

Mig langar til að minnast á gríðarlega mikilvægan þátt í matvælaframleiðslunni sem hefur ótrúleg áhrif á loftslagsbreytingar. Það er offramboð matvæla sem eru framleidd í heiminum í dag með tilheyrandi mengun og ofnotkun landsvæðis sem fer undir framleiðslu á mat sem er síðan hent og veldur ójafnvægi náttúrulífs og dýralífs, svo ekki sé talað um þann hrópandi ójöfnuð sem felst í því að henda mat þegar milljónir manna um allan heim svelta eða búa við hungurmörk.

Það er til dæmis staðreynd, samkvæmt nýjum tölum frá Yale-háskólanum í Bandaríkjunum, að 40% matvæla í Bandaríkjunum er hent. Tölur frá sama háskóla sýna líka að á hverju ári er matvælum að verðmæti 750 billjónum dollara hent í heiminum öllum og 1,6 billjónir tonna af matvælum eru skilin eftir á engjum og ökrum eða notuð í landfyllingar um allan heim á hverju ári. Svo er öðrum 7 milljónum tonna af fiski hent í hafið á hverju ári, samkvæmt tölum frá Yale. Þetta eru risavaxnar tölur og erfitt fyrir okkur að átta okkur í raun og veru á þeim.

Ég hef mikla trú á því að íslenskir bændur og matvælaframleiðendur leiti allra leiða til að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að íslensk matvælaframleiðsla verði í fararbroddi þegar kemur að umhverfisvænum framleiðsluháttum. En við getum ekki bara dregið einstaklinga og framleiðendur og neytendur til ábyrgðar þegar kemur að ábyrgum umhverfisvænum neysluháttum á matvælum og framleiðslu þeirra, heldur verður kerfið, (Forseti hringir.) ríkið, yfirvöld, að ganga fram fyrir skjöldu og hvetja með markvissum aðgerðum til umhverfisvænna (Forseti hringir.) aðgerða í framleiðslu á matvælum. Ég vona að umhverfisráðherra (Forseti hringir.) stígi þar mjög ákveðið fram.