145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

áhrif kjöt- og mjólkurframleiðslu á loftslagsbreytingar.

[16:37]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka afar góðar og áhugaverðar umræður hér. Ég vona að við munum halda áfram að ræða þetta mál.

Mig langar bara að lýsa ánægju minni með það sem ég hef upplifað. Mér finnst unga fólkið drífa þessa baráttu svolítið áfram, a.m.k. vera í fararbroddi í þessari umræðu. Margir eru líka að hugsa um dýravelferð og jafnvel frekar en umhverfisáhrifin eða hvort tveggja. Hér hefur verið talað um veganúar sem er einhvers konar sambland af janúar og vegan, þ.e. grænmetisætu, sem ég ætlaði aldeilis að taka þátt í en féll fljótlega því að ég átti óvart parmaskinku í ísskápnum en markmiðinu var náð vegna þess að þegar ég tók parmaskinkuna gerði ég mér grein fyrir því hvað ég var að gera og hugsaði: Ókei, þetta þýðir kannski að ég ætti að fara rólega í kjötið næstu daga. Það sem mér finnst mjög mikilvægt er í rauninni að þetta er ekki bann eða af eða á, þetta er spurning um að vera upplýstur og taka ákvarðanir út frá eigin forsendum. Ég vil kalla mig „reducetarian“, ég hef ekki enn þýtt það, en það gengur í rauninni út á að minnka neyslu á t.d. kjöti og mjólkurafurðum. Það væri reyndar alveg þess virði að minnka neysluna yfir höfuð, eins og við ræddum í gær, því að við erum mikið neyslusamfélag og það hefur sín umhverfisáhrif.

Ég vil að lokum brýna umhverfisráðherra áfram því að mér finnst mikilvægt að við byggjum á staðreyndum og gögnum þegar kemur að kolefnisfótspori íslenskrar landbúnaðarframleiðslu. Ég held að við eigum sóknarfæri, eins og hv. þm. Haraldur Benediktsson rakti hér í ræðum sínum og ég hafði gaman af að hlusta á. Ég vil gjarnan fá þessa hluti betur upp á borðið því að ég er viss um, hvort hæstv. ráðherra kom einnig inn á það, að við munum í framtíðinni sjá vörur beinlínis merktar með kolefnisspori og það verða þá einhverjir staðlar sem við miðum við.

Ég hef ekki sagt mitt síðasta í þessum ræðustól um þetta mál. Ég þakka kærlega fyrir góðar umræður.