145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

áhrif kjöt- og mjólkurframleiðslu á loftslagsbreytingar.

[16:40]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það og þakka fyrir umræðuna.

Lykilorðin eru sóun, neysla, nýtni. Í þessu máli eins og öllum öðrum ber okkur að hafa það að leiðarljósi að nýta auðlindir okkar sem best og passa okkur á að sóa ekki verðmætum að óþörfu.

Um matvörur og nærumhverfi vil ég segja að ég get tekið undir nánast hvert einasta orð sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hafði héðan úr ræðupúlti. Mér fannst hún koma inn á mjög margt, t.d. að grasland er okkar auðlind, grasið. Þess vegna er náttúrlega mikið um grasbíta hér á landi og hefur verið frá upphafi. Frá örófi alda vorum við hirðingjar. Ég get ekki gengið svo langt að segja að það sé eitthvað að því að rækta dýr til manneldis. Ég tel mjólk holla. Ég styð sjálfbæran búskap. Jórturdýrin geta ekki gert að því þó að þau jórtri.

Strax og ég tók við því embætti sem ég gegni sagði ég að ég mundi hafa nýtni og umgengni að leiðarljósi. Það snertir alla þætti sem við erum með, alveg sama hvaða umræðu við tökum hér á þingi, hvort hún er um plast eða hvað annað.

Það sem vakti mesta athygli af því sem við Íslendingar vorum að kynna í París, fyrir utan jarðhitann, var einmitt landgræðsla, hvernig við nýtum jörðina og hvernig við getum gert hana betri. Menn horfðu mikið til þess árangurs sem við Íslendingar höfum þó náð og hvað við værum með í pokahorninu.

Ég tel að það sé rétt að við séum í svo breyttum heimi, eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, að allar vörur verði jafnvel framvegis merktar því hvernig kolefnisspor þær bera.

Ég tek undir að það er algjörlega nauðsynlegt fyrir okkur að fá staðreyndir og sem best talnagögn þegar við förum að vinna eftir því samkomulagi sem hefst árið 2020. Þá verðum við undirbúin. Fram að því gildir Kyoto-bókunin.