145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

listamannalaun.

[16:48]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á stöðu listamannalauna. Kannski er ekki vanþörf á því í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur í þjóðfélaginu að undanförnu. Ég vil þó segja í upphafi að sögulega er áhugavert að líta til þess stuðnings sem listamenn hafa fengið á Alþingi. Stuðningur við listamenn nær allt til síðustu áratuga 19. aldar með einstökum fjárveitingum til þeirra. 1886 og 1887 var til að mynda Guðrúnu Waage veittur styrkur til að nema sönglist og árið 1891 voru Matthíasi Jochumssyni veitt skáldalaun og Torfhildi Hólm var veittur styrkur til ritstarfa. Lög um listamannalaun voru hins vegar ekki sett fyrr en á árinu 1967 og um áratug síðar voru sett lög um launasjóð rithöfunda. Þessi tvenn lög voru svo leyst af hólmi með nýjum lögum um listamannalaun sem voru sett árið 1991 og síðan með gildandi lögum frá 2009. Sagan er löng, virðulegi forseti.

Ég ætla að snúa mér beint að þeim spurningum sem hv. þingmaður lagði fyrir mig. Fyrst er spurningin um hvort ég hyggist beita mér fyrir endurskoðun á úthlutunarreglunum. Ég tek fram að ég hef nú þegar átt samtal við formann stjórnarinnar og hyggst eiga fund með stjórninni þegar tími gefst til, hef áður fundað með stjórn listamannalauna en sé ástæðu til þess í ljósi þessarar umræðu að ég eigi slíkan fund við fyrsta tækifæri.

Hvað varðar spurninguna um hvernig tryggja beri gagnsæi við úthlutun listamannalauna vil ég nefna að í lögum um listamannalaun og þeim reglugerðum sem á þeim lögum hvíla eru engin ákvæði um leynd. Ekkert í lögunum kveður á um slíkt. Stundum hefur verið bent á það að í 21. gr. stjórnsýslulaganna sé ákvæði þar sem talað er um að opinberir aðilar eða stjórnvald þurfi ekki að rökstyðja ákvarðanir sínar um styrki á sviði lista, menningar eða vísinda. Ég tel þó að menn geti illa borið það ákvæði fyrir sig ef þeir geta ekki í það minnsta birt upplýsingar í takt við það álit sem umboðsmaður gaf hér fyrir nokkrum árum um slík mál, þ.e. þannig að það sé ákveðið lágmarksgagnsæi, haldið utan um gögn og hægt að vísa til þeirra. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er sú að ég held að reynslan kenni okkur núna að það skipti máli að hafa þetta sem gagnsæjast þannig að það komi skýrt fram hvernig að þessu er staðið. Ég held að það sé listamönnum og öllum til góða að gera það. Þó vil ég nefna sérstaklega þá sem sitja í úthlutunarnefndunum. Það er mjög erfitt og vandasamt starf og vanþakklátt. Síðan má heldur ekki koma þessum málum þannig fyrir að það verði mjög erfitt að fá fólk til að sitja í slíkum nefndum. Það liggur fyrir að þetta er viðkvæmt og við þurfum á fagfólki að halda í þessum nefndum.

Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni hvort við ættum ekki að færa þetta val hingað til þingsins og mitt svar við því er: Nei, ég er ekki sammála því. Ég vil ekki að stjórnmálin taki þessar ákvarðanir. Ég sé alveg þá vankanta sem uppi eru og veit vel að stjórnmál geta leynst víða en mér finnst samt betra það fyrirkomulag að úthlutunin sé í höndum listamannanna sjálfra. Þá skiptir hins vegar máli að ákvarðanirnar séu gagnsæjar. Þetta er allt hægt að skoða og meta með stjórn listamannalaunanna.

Síðan spyr hv. þingmaður um mat á því hvað rúmur hálfur milljarður í listamannalaun skili samfélaginu. Ég held að það sé óumdeilt, og hv. þingmaður fór í raun og veru yfir það sjálfur í ræðu sinni, að það er alveg gríðarlega mikilvægt, ef við horfum til dæmis á rithöfundana, fyrir fámennt málsvæði eins og okkar að rithöfundar séu starfandi. Það er útilokað að ætlast til þess að hægt sé að viðhalda íslenskri tungu einungis með þeim fjölda rithöfunda sem markaðurinn ber. Það þarf opinberan stuðning. Við viljum hafa fleiri rithöfunda og að það séu skrifaðar fleiri bækur en örmarkaðurinn einn stendur undir. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir samfélag okkar.

Hvað varðar tekjutengingu listamannalauna er ég ekkert sérstaklega hrifinn af þeirri hugmynd og gæti fært fyrir því rök í minni seinni ræðu.

Hvað varðar það að tengja greiðslur listamannalauna við framvindu verka listamannsins vil ég bara benda á, virðulegi forseti, að þeir sem njóta starfslauna í sex mánuði eða lengur skulu ekki gegna fullu starfi meðan á starfslaunatímanum stendur og að starfslaunaþegar skulu skila skýrslu um störf sín á starfslaunatímanum eigi síðar en ári eftir að honum lýkur. Stjórn listamannalauna má fella niður starfslaun sem veitt eru (Forseti hringir.) til lengri tíma en sex mánaða ef talið er að viðkomandi listamaður sinni ekki list sinni, að mati stjórnar.

Við síðustu spurningunni, um hvort hætta eigi úthlutun listamannalauna, er stutta svarið: Nei.