145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

listamannalaun.

[16:53]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú er hafin hin árlega deila um réttmæti listamannalauna. Það er umræða sem oft og tíðum er bæði óvægin og ósanngjörn eins og mér fannst sannast í ræðu málshefjanda, því miður. Listsköpun er nauðsynleg næring fyrir menningu okkar og andlegt líf en hún er ekki síður næring fyrir efnahag okkar og hagvöxt. Ekki viljum við að tónlistin þagni, ekkert frekar en að við viljum að ljósin slokkni. Ekki viljum við fara á mis við það að njóta góðra bóka, sviðslista, myndlistar og hönnunar. Það er einfaldlega staðreynd að ef ekki kæmi til styrkur hins opinbera við listalíf í landinu, m.a. í formi starfslauna, værum við fátækari sem þjóð. Um það hvort fyrirkomulagið á útdeilingu starfslauna er hið eina rétta má auðvitað deila en ég vil þó segja að umgjörð um það hefur mikið batnað á síðustu árum og orðið bæði skýrari og markvissari, eins og hæstv. menntamálaráðherra fór yfir rétt áðan. Ég vil líka segja að hugmynd málshefjanda, hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar, um að taka upp pólitíska úthlutun listamannalauna nær engu máli, að mínu mati.

Þegar auglýst er eftir umsóknum til launa úr starfslaunasjóðum er alveg sjálfsagt að hafa skýrar upplýsingar um forsendur úthlutana og hvort miða skuli við tegundir verka, fjölda þeirra, þema o.s.frv. Það má til dæmis hugleiða hvort miða skuli starfslaunastyrki við þá sem eru að hefja listferilinn frekar en hina sem hafa sannað sig. Þetta eru útfærsluspurningar.

Núna fá um 20% þeirra sem sækja um úthlutun. Það er ekki hátt hlutfall. Heildarfjármunirnir eru í kringum 560 millj. kr. Það lætur nærri að vera andvirði tveggja einbýlishúsa á Ægisíðunni og er ekki mikið í hinu stóra samhengi.

Við skulum ekki deila um réttmæti listamannalauna. (Forseti hringir.) Ræðum frekar um það hvernig við getum eflt þennan þátt og bætt umgjörðina þannig að fleiri fái að njóta.