145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

listamannalaun.

[16:56]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég verð að taka undir það að mér þótti heldur óvægin orðræða málshefjanda þegar hann nánast sakaði fólk um óheiðarleika. Vöxtur og viðgangur svokallaðra skapandi greina hefur blómstrað undanfarin ár og verður að teljast mikilvægur þáttur í atvinnustarfsemi og tekjumyndun hér á landi. Minnsti hluti þess er ríkisstyrkirnir. Það blasir við að þróun getur því aðeins orðið ef menntastarf í listgreinum er öflugt og listamenn hafa tækifæri til að iðka list sína. Í því ljósi eru starfslaun listamanna að sjálfsögðu fjárfesting í tekjumyndandi starfsemi sem hið opinbera nýtur einnig góðs af með skattheimtu. Starfslaun listamanna eru þannig til dæmis sambærileg við ýmsa innviðafjárfestingu.

Því má halda til haga að starfslaun listamanna eru háð því að listamennirnir séu að vinna á sínum vettvangi og skili af sér fullunnum verkum. Starfslaunin eru þannig veitt vegna listarinnar en ekki listamannanna. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að styðja við skapandi greinar með það að markmiði að þær eflist og sæki fram eins og síðasta ríkisstjórn lagði áherslu á. Allar rannsóknir sýna að fjárfesting í skapandi greinum, sérstaklega í formi opinberra styrkja, skilar sér margfalt til baka. List og menningu er ekki hægt að verðmerkja. Þetta eru ómetanleg verðmæti og á undanförnum dögum höfum við heyrt viðtöl við ferðamenn sem þekkja íslenskt listafólk sem byrjaði ekki á toppnum heldur liggur þar að baki þrotlaus vinna.

Varðandi úthlutun starfslauna er vissulega hægt að hafa ýmsar skoðanir á því hvernig þeim verður best fyrir komið. Nú skipa hagsmunasamtök listamanna úthlutunarnefndir sem kannski er ekki heppilegt fyrirkomulag. Fyrir samtök sem í eðli sínu eiga að vera frjáls, óháð og gagnrýnin er óheppilegt að þau úthluti fjármunum til félaga sinna þrátt fyrir regluverkið. Að því má huga.

Það er fjárhagslega ekki sérlega gjöfult að starfa sem listamaður á hinu litla Íslandi nema í algjörum undantekningartilfellum. Sem betur fer eigum við og höfum átt listamenn sem leggja allt undir fyrir listina, hvort sem þeir vinna alvöruvinnu eða ekki. Ég er hrædd um að við hefðum farið á mis við ýmislegt í gegnum aldirnar ef svo væri ekki.

Með listamannalaunum er fjölbreyttari menningarflóru gert kleift að dafna og fyrir vikið stendur okkur til boða menningarlegt efni af margvíslegum toga (Forseti hringir.) sem er ómælanlega mikilvægt og fyrir það er ég afskaplega þakklát.