145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

listamannalaun.

[16:58]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í byrjun þessarar umræðu finnst mér mjög mikilvægt að við ruglum ekki saman almennum listamannalaunum og svo heiðurslistamannalaunum, sem eru gerólíkir hlutir. En menning er okkur öllum mikilvæg og ég tel mjög gott ef hæstv. ráðherra er tilbúinn að skoða fyrirkomulagið enda er það eðlilegt þegar mál er umdeilt að skoða það og athuga hvort þörf sé á að breyta fyrirkomulaginu. Um leið er ég sammála hæstv. ráðherra um að ekki eigi að færa þetta vald til þingsins. Síðan finnst mér líka mikilvægur punktur sem fram kom í umræðunni áðan að það eru margir merkir listamenn í sögu Íslands sem þegið hafa listamannalaun.

Þá tel ég einnig að íslensk list sé mikilvægur þáttur í kynningu landsins þótt alltaf megi skoða nýjar hugmyndir þegar við ræðum þessi mál. Þær hugmyndir sem helst hafa verið í umræðunni eru að meira gegnsæi verði í úthlutunum. Þá er kannski spurning varðandi þær framvinduskýrslur sem listamenn skila inn hvort á einhvern hátt er hægt að gefa til kynna hvaða árangri þeir skila og eins hvort setja eigi þak á það hversu lengi listamenn geta verið á laununum hverju sinni. Rætt var um málsvæðið Ísland áðan og það er alveg satt að markaðurinn ber ekki eingöngu uppi listamennina, verðum við líka að passa að sömu listamenn festist ekki alfarið í ríkisaðstoðinni heldur geti fleiri sótt um. Þá er spurning hvort setja þurfi tekjutengingu á listamannalaunin eða hvort dreifa þurfi þeim á fleiri aðila og reyna að halda utan um nýja listamenn — ég vil ekki eingöngu flokka unga listamenn sem nýja listamenn því að þeir geta verið nýir sama á hvaða aldri þeir koma fram með list sína. Einnig er spurning hvort við ættum að horfa meira til menningarsamninga landshluta, breikka þann ramma og reyna að vinna með ákveðnum svæðum, búa til rætur fyrir þessa listamenn. Til dæmis hafa margir leikhúshópar og sviðslistamenn gert það í samstarfi við ýmis svæði á landinu. Jafnvel mætti tengja það við atvinnu á hverjum stað (Forseti hringir.) og nýta sér þá kosti sem menningarsamningar og menningarráð hafa náð fram, meðal annars með því að víkja af fundum vegna persónulegra tengsla (Forseti hringir.) eða annarra tengsla við umsækjendur og svo framvegis.