145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

listamannalaun.

[17:01]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil segja til að byrja með að ég er algjörlega á móti því að Alþingi fari að úthluta listamannalaunum. Úthlutun listamannalauna og í rauninni allra fjármuna úr samkeppnissjóðum verður að vera með faglegu yfirbragði og að sjálfsögðu á gagnsæjan hátt.

Ég er alveg viss um að það er hægt að ræða fyrirkomulagið á úthlutun listamannalauna. Það hvernig það er framkvæmt þarf líka að vera allt saman alveg kórrétt. Ég býst við að það sé að mörgu leyti umræða sem þarf stöðugt að vera í gangi.

En af hverju gýs árlega upp umræða um listamannalaun? Það er verið að veita fullt af styrkjum í samfélaginu, til nýsköpunar og alls konar verkefna á mörgum sviðum og við höfum ekki sömu tortryggni í garð slíkra úthlutana. Það er eins og sú skoðun sé alltaf undirliggjandi að listir skili litlu, einhvers konar grunsemdir um að þetta sé eitthvert föndur, eitthvað sem er bara ágætt með og eigi jafnvel ekkert að vera að styðja.

Ég fagna þó þeim samhljómi í umræðunni að það virðist vera kýrskýrt í hugum flestra að listir, menning og sköpun búi til verðmæti. Sumir eru á listamannalaunum en miklu fleiri eru á launum vegna listamanna. Hins vegar njóta listamennirnir sem búa til listina oft ekki afrakstursins þannig að ein sterkasta röksemdin fyrir listamannalaunum er einfaldlega sú að leiðrétta þann brest að verðmæti (Forseti hringir.) sem verða til rata oft ekki beint til listamannanna nema við höfum eitthvert svona kerfi.