145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

listamannalaun.

[17:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eitt af þeim atriðum sem myndar afstöðu mína er sú staðreynd að við erum agnarsmá þjóð í litlu landi með okkar eigið tungumál sem er í meginatriðum einungis talað hér á landi. Skynjun mín hefur alltaf verið sú að íslenska þjóðin vilji halda í íslenska tungu. Eins og ég hef margsagt hér þýðir það það að við þurfum að borga fyrir hana. Við þurfum að borga fyrir hana í peningum. Hjá því verður ekki komist. Íslenska tungan mun aldrei lifa af frjálsan tungumálamarkað vegna þess einfaldlega að hún er of lítil. Engar aðrar þjóðir ætla að taka upp íslensku í nánustu framtíð eða nokkurn tímann.

Við þurfum að eyða peningum í listir og mér finnst umræða um hvort listamannalaun eigi rétt á sér stundum gleyma þeim punkti. Þetta er mjög mikilvægur punktur, sama hversu hægri sinnaður maður verður í málaflokknum. Þó get ég í sjálfu sér lítið annað en fagnað og tekið undir orð hæstv. menntamálaráðherra. Mér þótti hann svara öllum spurningunum rétt og vera með áherslurnar á réttum stöðum.

Ég verð að segja eins og margir aðrir að ég tel fráleitt að færa úthlutunarvaldið til Alþingis. Ég held að það sé einn versti staðurinn til að ákveða svona hluti. Ég hef því miður reynslu af því vegna þess að ég er í hv. allsherjar- og menntamálanefnd þar sem við förum árlega yfir svokölluð heiðurslistamannalaun. Það er fyrirbæri sem ég er ekkert endilega á móti í sjálfu sér, ég er hins vegar algjörlega á móti því að ég eða þingmenn eigi að taka ákvarðanir um slíkt. Mér finnst það algjörlega út í hött. Á hverju einasta ári bölva ég þessu fyrirkomulagi í sand og ösku. Það er ekki þar með sagt að ég sé á móti laununum sjálfum heldur er mjög mikilvægt að rétt sé að málunum staðið, að gegnsæi sé til staðar og síðast en ekki síst tel ég mikilvægt að farið sé eftir reglum og stöðlum að því marki sem er mögulegt.

Það er hins vegar ekki alltaf mögulegt að verulegu marki þegar kemur að listum vegna þess að þær eru mjög huglægar. Því meira sem við getum þó gert af því, því betra.