145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

listamannalaun.

[17:08]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Mér finnst áhugavert að sama dag og hv. þm. Ásmundur Friðriksson á hér sérstaka umræðu um listamannalaun við flokksbróður sinn, hæstv. ráðherra mennta- og menningarmála, birtist skoðanakönnun á vegum MMR um viðhorf Íslendinga til þess að ríkið greiði listamönnum laun. Niðurstaðan er sú að meiri hluti er fylgjandi því að ríkið greiði út listamannalaun og hefur hlutfall þeirra sem eru fylgjandi því að ríkið greiði listamönnum laun aukist síðustu ár, um 14% frá árinu 2010. (ÁsF: Ég …) Þetta sýnir okkur að sem betur fer endurspegla viðhorf hv. þingmanns (ÁsF: Ég er í þeim hópi.) ekki viðhorf meiri hluta þjóðarinnar og almennings, (ÁsF: Ég er …) ekki nema þá kannski viðhorf kjósenda Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks en þau viðhorf virðast vera nokkuð sér á báti þegar almennt er litið yfir sviðið.

Mig langar til að minna hv. þingmann á að skapandi greinar velta 190 milljörðum kr. á ári hverju. Minnstur hluti þess er í formi ríkisstyrkja. Mig langar líka að minna hv. þingmann á það, ef hann skyldi hafa gleymt því, að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar sem hann styður er ákvæði um að hún ætli að leggja áherslu á að styðja við skapandi greinar. Ég sé ekki að það sé í samræmi við málflutning hans hérna, a.m.k. ekki úr þessum ræðustól.

Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hér hafa lýst andstöðu sinni við það að Alþingi ákveði laun listamanna. Ég er mjög fegin að heyra að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sé andsnúinn því. Við getum flutt endalausar ræður úr ræðustól Alþingis um mikilvægi lista fyrir okkur sem þjóð og fyrir samfélagið. Ég tel að við séum öll sammála um nauðsyn lista og öflugs listalífs sem getur ekki blómstrað eðlilega nema með því að við sem þjóð og samfélag styðjum við listalíf og listamenn. Það gerum við ekki bara með andlegum stuðningi heldur líka með fjárhagslegum stuðningi. (Forseti hringir.) Það er það minnsta sem við getum gert til að þakka listamönnum þjóðarinnar fyrir þeirra framlag.