145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

listamannalaun.

[17:10]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir að hefja máls á þessu, ekki vegna þess að ég sé á móti listamannalaunum, alls ekki, ég er þeim algerlega fylgjandi, en ég tel hins vegar og það er hlutverk okkar þingmanna að ræða um málin á þinginu með gagnrýnum hætti til þess að geta bætt lagaumgjörð og bætt samfélag okkar. Það er enginn hafinn yfir þá gagnrýni, hvort sem umræðan er árleg, sjaldnar eða oftar, það skiptir engu máli.

Ég fagna því eins og fleiri þingmenn að ekki standi til að breyta lögum um listamannalaun. Listin er okkur algerlega lífsnauðsynleg og ég er viss um að enginn hér vill draga úr þessum stuðningi við listamenn. Við þurfum á leikurum, málurum, rithöfundum og öllu þessu góða fólki að halda til að gefa lífinu lit og dýpka okkar andlega líf. Ekki veitir stundum af í lífsins ólgusjó.

Ég tek þó undir með sumum sem hér hafa talað að mér finnst að við getum alveg skoðað þessar tekjutengingar. Og jafnvel þó að ákvæði sé ekki í núgildandi lögum um einhverja leynd finnst mér alveg spurning hvort við ættum samt sem áður að setja sérstakt ákvæði inn í lögin sem kveður á um upplýsingaskyldu með það í huga að auka gegnsæi. Ég held að við séum öll sammála um að það væri til bóta til þess að auka sáttina í þessu máli. Við þurfum að eyða tortryggninni og ég tek undir með hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, þessi tortryggni er bara þreytandi og eyðileggjandi. Þetta er mál sem sátt verður að ríkja um í þjóðfélaginu.

Einnig tek ég undir með þeim sem nefnt hafa að við ættum ef til vill að leggja áherslu á nýja listamenn og mögulega að framlag (Forseti hringir.) væri tímabundið. Maður veltir líka fyrir sér: Þeir afkastamiklu listamenn sem aldrei fá neina styrki þó svo að þeir sæki um, hvers vegna er það? Eiga þeir ekki réttu vinina? Eru þeir ekki nógu góðir að fylla út umsóknir? Við þurfum líka að skoða það.