145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

listamannalaun.

[17:13]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásmundur Friðriksson flutti hér áðan óvenjulélega ræðu um þetta mál, óvenjulélega framsöguræðu þar sem hann tók kjaftasögu sem sett var fram í einum fjölmiðli um að einn af þeim sem hefðu þegið listamannalaun hefði bara gefið út eina bók á síðustu níu árum, saga sem síðan hefur verið leiðrétt og útskýrð. Engu að síður gerir hv. þingmaður það að umtalsefni og rammar inn einhvern veginn þetta mál sem dæmi um það hversu ótækt þetta allt saman sé. Fyrir utan það að þetta er rangt þá er fráleitt að ætla að skilyrða listamannalaun við einhvers konar framleiðslueiningar, eins og mér heyrist hv. þingmaður vilja gera.

Það er ágætt að hv. þingmaður vilji láta af klíkuskap og ógagnsæjum vinnubrögðum, batnandi mönnum er best að lifa. En við skulum þá ræða það í stóru samhengi. Förum yfir það hvernig menn ákváðu að skipta niður 400 millj. kr. sem áttu að fara til hafnarbóta hér fyrir jól. (Gripið fram í.) Þeir fengu einn fulltrúa í fjárlaganefnd til að ákveða hvernig skipta ætti að þeim fjármunum og hann ákvað og lagði til að 100 milljónir, 25% af þeim fjármunum, færu til hafnar í hans kjördæmi. Tökum saman alla þá opinberu styrki sem íslenska ríkið (Gripið fram í: Málefnalegt.) veitir til opinberra verkefna á hverju ári (Gripið fram í.) og berum þá saman við þá styrki sem hér er um að ræða. Fyrir utan menningarlegt hlutverk þessara listamannalauna er hér auðvitað um að ræða styrki til atvinnuverkefna með einum eða öðrum hætti. Við skulum þá bara setja þetta allt saman upp á borðið.

Ég ætla að gerast svo djarfur í þessari umræðu að vera ekkert að þakka sérstaklega fyrir þessa umræðu, eins og margir gera hér þegar sérstök umræða fer fram, vegna þess að hún er eingöngu byggð á popúlískri þrá hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar eftir atkvæðum þeirra sem tortryggja listamannalaun. Þannig er það.