145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

listamannalaun.

[17:17]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanns fyrir umræðuna. Listir og menning eru svo mikilvægur þáttur í íslensku samfélagi að það er alveg eðlilegt að við ræðum hann á þingi. Ég hef skilið þessa umræðu þannig að hún sé tvíþætt. Annars vegar er spurningin um úthlutunarreglur, og við höfum rætt þær nokkuð hér, og hins vegar er spurningin um hvort við eigum að hafa listamannalaun eða ekki. Ég skil það svo að það sé góður samhljómur um að við ætlum að hafa þau áfram. Menn geta síðan tekist á um úthlutunarreglur.

Þegar kemur aftur að spurningunni um af hverju við ræðum þetta má orða það svo að listir eru dauðans alvara. Listir eru gríðarlega mikilvægt afl í þjóðfélaginu og ég lít svo á að þegar við erum að styrkja listamenn og listirnar almennt séum við að fjárfesta í samfélagsgerðinni. Ég er þeirrar skoðunar að það skipti öllu að maður búi í sæmilega siðuðu samfélagi. Það sem ég horfi á sem siðað samfélag, það er bara mín skilgreining, er samfélag þar sem fólk getur sett sig inn í tilfinningalíf annarra manneskja, skilið afleiðingar gjörða sinna og aðgerða á líf annars fólks og sett sig í þess spor.

Hvað gera listirnar, virðulegi forseti? Listirnar gera akkúrat þetta, þjálfa okkur í því að setja okkur inn í hugarheim annarra. Þegar við lesum skáldverkið, horfum á myndlistina eða hlustum á tónverkið erum við að setja okkur inn í hugarheim annarrar manneskju. Það er akkúrat sú þjálfun sem leggur grundvöllinn að siðuðu samfélagi. Einar og sér klára listirnar þetta ekki, en þær eru mikilvægar til að hjálpa okkur á þessari vegferð. Til þess að búa í opnu, frjálsu samfélagi sem er grundvöllur fyrir hið kapítalíska hagkerfi skiptir þetta alveg gríðarlega miklu máli. Ég sem hægri maður er tilbúinn að standa að því að ríkið fjárfesti með þessum hætti vegna þess að þar með tel ég líka að við eigum auðveldara með að opna samfélagið. Við þurfum ekki að setja reglur um ýmsa mannlega hegðun sem við eigum að geta treyst að gangi fram með ákveðnum hætti í siðaðra manna samfélagi. Það er þetta samhengi, á milli hins siðaða samfélags og hins kapítalíska og opna hagkerfis, sem ég í það minnsta legg áherslu á og er tilbúinn að fjárfesta í og tel skipta verulega miklu máli fyrir íslenskt samfélag.