145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[17:20]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér til að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, um skilyrðingar fjárhagsaðstoðar. Ég var satt best að segja að vona að þetta frumvarp væri úr sögunni. En nei, það var á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og nú er það komið inn.

Við vorum allnokkrir þingmenn sem töluðum mjög gegn frumvarpinu hér á síðasta þingi og það hefur nú tekið litlum breytingum. Einhverjar útfærslubreytingar eru en megininntakið er það sama. Það á að gefa út einhvers konar viðmiðunarfjárhæðir fyrir fjárhagsaðstoð til sveitarfélaga; engar skyldur um ákveðnar fjárhæðir, bara viðmið. Og það á að heimila skilyrðingar þar sem gengið er út frá því að ákveðinn hópur á fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna sé þar af því að hann nenni ekki að vinna.

Frumvarpið endurspeglar viðhorf til fólks sem er afskaplega ógeðfellt. Það er nefnilega svo að við eigum það öll sameiginlegt að vilja taka ábyrgð á okkur sjálfum, vera til staðar fyrir aðra og hafa áhrif á það samfélag sem við búum í. En okkur eru skapaðar mismunandi aðstæður til að lifa í samræmi við þá þörf okkar.

Við sem hér höfum verið valin í hlutverk löggjafans erum í forréttindastöðu hvað þetta varðar og okkur ber að íhuga það mjög alvarlega, gaumgæfa það rækilega, þegar við ætlum að fara að skerða réttindi þeirra sem hafa leitað til sveitarfélagsins vegna bágra fjárhagsaðstæðna. Við eigum að hafa í huga þá forréttindastöðu sem við búum við og setja okkur í spor þeirra sem hafa þurft að leita til sveitarfélagsins.

Fæst okkar hér hafa þurft þess, leyfi ég mér að fullyrða — kannski einhver — en enginn veit sína ævina fyrr en öll er og þó að við séum í þessum forréttindahópi nú þá gætum við lent í þessari stöðu, en þá er það of seint því að þá erum við búin, með bundið fyrir augun, að ákveða ramma fyrir aðra án þess að setja okkur í þeirra spor.

Í 1. umr. hér síðast hélt ég ræðu og fór yfir tildrög löggjafarinnar og mikið var lagt upp úr því þegar þessi löggjöf, í tíð Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi félagsmálaráðherra, var samþykkt og tók gildi frá og með árinu 1991. Þetta var þá tímamótalöggjöf sem skipti sköpum fyrir breytt viðhorf.

Ég ætla að vitna eins og í síðustu ræðu í greinargerðina. Þar segir með leyfi forseta:

„Því ber ekki að líta svo á að einstök ákvæði í frumvarpi þessu feli í sér opinbera forsjá á málum einstaklinga eða hópa heldur hið gagnstæða. Í því felst að stuðlað skuli að því að einstaklingnum verði skapað það öryggi og þau skilyrði sem nauðsynleg eru til þess að hann fái lifað og dafnað með eðlilegum hætti í samfélagi við aðra.“

Ef við viljum að fólk fái að lifa og dafna þá gerum við það með hvatningu og stuðningi ef á þarf að halda, en ekki með refsivendi.

Það má segja að með frumvarpinu sé hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra að segja, með fulltingi sveitarfélaganna, að samfélagslegur vandi sé á ábyrgð einstaklingsins. Ég sakna þess að engin tölfræðiúttekt er hér á fjárhagsaðstoðinni. Ég fór yfir það í ræðunni á síðasta þingi að hlutfall fólks á fjárhagsaðstoð, eftir hið mikla fjármálaáfall sem hrun bankanna og krónunnar olli, var svipað og hlutfall þeirra sem voru á fjárhagsaðstoð eftir fyrri efnahagsörðugleika þó að það hafi verið mun minni örðugleikar.

Í raun ættum við að vera stolt af þeim árangri sem við höfum náð nú eftir þetta alvarlega efnahagsáfall að hafa haldið þetta mörgum fyrir ofan mörkin. Þetta gerðist þrátt fyrir að stærsta sveitarfélagið, Reykjavíkurborg, hafi hækkað fjárhagsaðstoðina og verið með þá hæstu í landinu til að mæta þeim hópum sem lentu hvað verst í hruninu.

Af því að ég fæ engar tölulegar upplýsingar með frumvarpinu þá fór ég inn á vef Hagstofunnar. Til þess að fá fram hlutfallið þá þarf maður að leggjast í smágrúsk sjálfur. Maður finnur það nú ekki beint í einni töflu. En ég tók árin 1997, 2002, 2007, 2012, 2013 og 2014. Um 1997 voru um 2,1% á fjárhagsaðstoð og það er þá einhvern tíma yfir árið; flestir eru bara smátíma sem er þakkarvert því að það er mjög erfitt að draga fram lífið á greiðslum sem þessum. Árið 2002 var þetta um 2,1% en árið 2007 voru þetta ekki nema 1,4% landsmanna, enda var þá hvínandi góðæri. Þessar tölur fóru upp í 2,4% 2012, 2,5% 2013 og nú er það komið niður í 2,4% aftur og mun fara lækkandi því að atvinnustigið hefur sannarlega áhrif á þetta. Þar liggur samspilið.

Á Íslandi er nú innan við 5% atvinnuleysi og þess er þegar farið að gæta og hefur fólki á fjárhagsaðstoð í Reykjavík fækkað um 10% á milli ára. Að sjálfsögðu á það að vera keppikefli okkar að sem fæstir þurfi að reiða sig á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga en það gerum við ekki með því að skella í lás heldur með því að tryggja aðstæður þannig að fólk geti framfleytt sér sjálft.

Þó að það sé aldrei birt í textum þá heyrist það oft í máli þeirra sem mæla helst með því að svona sé farið að, þ.e. að heimila skerðingu um allt að helming á fjárhagsaðstoð til fólks sem neitar að vinna ef vinna er í boði eða virkniúrræði, að um sé að ræða einhleypa karla, unga, sem hangi í tölvunni og nenni ekkert að vinna. Þetta er hugmynd sem er ansi lífseig. Það er ekki þannig að það sé neitt sem rökstyðji það sérstaklega. Tölur frá Reykjavík sýndu að það var ekkert hlutfallslega fleira ungt fólk á fjárhagsaðstoð eftir hrun. En þetta er hópur sem er viðkvæmastur fyrir sveiflum á vinnumarkaði; fólk sem oft hefur ekki lokið framhaldsmenntun og fólk sem hefur nánast enga reynslu af vinnumarkaði, þegar efnahagslægðin ríður yfir með atvinnuleysi, og á því erfitt með að ná fótfestu á vinnumarkaði.

Einnig ber að hafa í huga að margir af þeim sem koma til sveitarfélagsins síns, af því að þeir geta ekki framfleytt sér sjálfir, hafa oft komið að lokuðum dyrum. Þetta eru einstaklingar sem hafa ekki fengið þá aðstoð sem þeir þurftu innan skólakerfisins, hafa ekki átt kost á niðurgreiddri sálfræðiþjónustu, þolendur kynferðisofbeldis með einhvers konar áfallastreituröskun. Það eru alls kyns aðstæður í lífi fólks sem hafa valdið því að líf þess hefur ekki verið dans á rósum. Það hefur verið mikið mótlæti. Þetta er alls ekki algilt en oft er það að koma til sveitarfélagsins og óska eftir fjárhagsaðstoð enn ein hindrunin að yfirstíga í lífi fólks.

Ég tel það enn eina ferðina sanna áherslur þessarar hægri stjórnar að búið er að stytta atvinnuleysistímabilið um hálft ár. Þar var nú aldeilis hægt að beina fólki inn í virkniúrræði og búið að heimila ýmsar skilyrðingar. Svo er búið að þrengja möguleika fólks til framhaldsmenntunar. Af hverju er ekki verið að breyta því til baka, lengja aftur atvinnuleysistryggingatímabilið? Því að atvinnuleysi er enn allt of hátt þó að það hafi vissulega lækkað mikið.

Og af hverju er ekki verið að breikka framboðið í framhaldsmenntun til að fleiri geti menntað sig en dæmist ekki af því að þeir hafa ekki áhuga á bóklegum greinum og eru þá komnir á vinnumarkaðinn með slök réttindi og laun? Fara svo á milli vinnustaða án atvinnuöryggis og sjá ekki fram á að geta aflað sér sæmilegra tekna og missa vonina og upplifa kannski að við búum í samfélagi sem geri ekki ráð fyrir öllum.

Þessi ríkisstjórn er með þau skilaboð til þessara einstaklinga að það sé þeirra að herða sig. Það er ekki okkar, sem hér erum, að skapa þeim betri skilyrði og sýna skilning á því að samfélagið er fjölbreytt og þarf á öllum sínum kröftum að halda og þarf að bjóða öllum upp á tækifæri til að verða sjálfum sér og öðrum til gagns. Ég hef skömm á þessu.

En ég er mjög hissa á því, eftir vinnuna í nefndinni síðast og kröfu okkar úr minni hlutanum, að ekki fylgi rökstutt lögfræðiálit um hvort þetta sé í samræmi við stjórnarskrá. Hæstv. ráðherra vitnaði hér í dóma og umboðsmann Alþingis og að eðlilegt hefði verið að ráðuneyti hennar hefði unnið upplýsingar upp úr þessum gögnum og ég er hissa á því að hér séu ekki tölfræðilegar úttektir sem styðja tilgang og markmið frumvarpsins. Ég er hissa á því að barnafólk sé enn inni í þessari mynd.

Ég velti því svo fyrir mér, hæstv. forseti, hvernig Vinnumálastofnun á að meta það hvort einhver sé vinnufær. Fólk fer á örorkulífeyri og örorku og þar koma læknar að málum. Ég tel starfsfólk Vinnumálastofnunar mjög öflugt en það hefur enga sérfræðiþekkingu í því að meta hvort fólk sé vinnufært eða ekki og fráleitt að taka slíkar ákvarðanir innan sveitarfélags og hjá Vinnumálastofnun.