145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[17:45]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir það vinsamlega bragð að leyfa mér að komast fram fyrir hana þar sem ég er aðeins tímabundinn vegna annars fundar hér rétt á eftir. Þetta frumvarp er afar mikilvægt frumvarp. Það er í rauninni skilaboð til þess fólks sem er á bótum, það eru skilaboð um hjálp. Sem betur fer hefur, eins og kemur fram, fækkað mjög í þeim hópi sem verið hefur hvað lengst atvinnulaus og komist inn á félagsþjónustu sveitarfélaganna. En það er alveg ljóst og hefur komið margoft fram í nefndinni í þau skipti sem málið hefur verið rætt þar og hefur komið hérna fram áður, komið skýrt fram í nefndinni frá þeim aðilum sem fjalla um þessi mál í samfélaginu í félagsþjónustu sveitarfélaganna, að þar sem skerðingum og skilyrðingum er beitt þar næst árangur. Sá árangur er fyrst og fremst fyrir þetta fólk til að koma því út á vinnumarkaðinn, koma því í nám, koma því í virkni.

Fulltrúar sveitarfélagsins Hafnarfjarðarbæjar komu til okkar í eitt eða tvö skipti og sögðu okkur frá merkilegu verkefni sem þau gerðu í samstarfi við atvinnulífið í bænum, fyrirtækin í Hafnarfirði, félagsþjónustuna og fólkið sem var á þessum bótum. Settar voru skilyrðingar um að þeir sem fengju tilboð um vinnu þyrftu að nýta það annars mundu bæturnar skerðast. Niðurstaðan var sú að algjör meiri hluti þeirra sem var á bótum þáði þá vinnu sem fyrirtækin lögðu fram. Ég man lengur ekki tölurnar, en það skipti tugum einstaklinga, skapaðir voru tugir nýrra starfa í Hafnarfirði til þess að eyða þessum ólánslista. Ég man eftir viðtölunum í sjónvarpinu við þá einstaklinga sem fengið höfðu úrlausn sinna mála og komust í vinnu, unnu hjá bænum, unnu í fyrirtækjunum, unnu alvörustörf, gátu mætt til vinnu á hverjum morgni og gengið hnarreistir heim. Þeir voru að sjá fyrir sér og fjölskyldu sinni.

En það þurfti auðvitað að beina þeim aðeins inn á þá braut vegna þess að við sem þekkjum aðeins til í þessum heimi vitum að það er alveg ótrúlegt hvað mannskepnan er fljót að aðlaga sig að alls konar aðstæðum sem ekki eru henni hagfelldar, sérstaklega unga fólkið, það snýr oft sólarhringnum við og það er erfitt að snúa til baka.

Frumvarp þetta kom fyrst fram á síðasta þingi. Það var loforð þáverandi ríkisstjórnar að klára það svo sveitarfélögin gætu haft sameiginlega stefnu í þessum málum. Það var ekki gert. Nú hefur það komið fram tvisvar frá því að ný ríkisstjórn tók við og við höfum ekki náð því fram. Það er þó fækkun á þessum listum, sem er náttúrlega mesta gleðiefnið og segir allt um stöðuna í samfélaginu. Það er blússandi sigling í atvinnulífinu og þess vegna vantar fólk. Þess vegna er mikilvægt að við höldum áfram á þessari braut, að við fáum þetta fólk til liðs við okkur og það komi aftur út á atvinnumarkaðinn. Ég veit það og við þekkjum það öll sem tekið höfum þátt í þessu að þá fyrst tekur gleðin völd í lífi þeirra á ný, þá fyrst þegar þau hafa eitthvað að gera. Það er svo mikilvægt að hjálpa fólki til sjálfsbjargar.

Ég fór á vegum þingsins til New York í heimsókn til Sameinuðu þjóðanna ásamt nokkrum þingmönnum í haust. Þar heimsóttum við stofnanir Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal þróunarsamvinnustofnunina, sem í raun er bara félagsþjónusta þjóðanna. Þó að þar séu hlutirnir á allt öðrum skala en hér var svo merkilegt að heyra að hjá þeirri stofnun fór ekkert að ganga í þessum þróunarmálum þeirra fyrr en þeir fóru að setja skilyrðingar fyrir árangri. Þannig er það hjá Hjálparstofnun kirkjunnar varðandi matarúthlutanir og hjá þeim hjálparsamtökum sem hjálpa fólki hér á landi. Því miður erum við enn í því. Því þarf auðvitað að breyta. En þar eru skilyrðingar fyrir aðstoð. Það hefur haft jákvæð áhrif. Allir aðilar þaðan sem komu fyrir nefndina hvöttu allir til þess að skilyrðingar yrðu teknar upp til að aðstoða fólk. Ég lít svo á að þetta góða frumvarp ráðherrans sé sett fram í þeim tilgangi að aðstoða þetta fólk og hafa sameiginlegar reglur sveitarfélaganna svo ekki séu mismunandi reglur á milli sveitarfélaga, sem er náttúrlega algjörlega ómögulegt. Ég þakka ráðherranum fyrir að koma fram með þetta frumvarp.

Það er auðvitað biturt að lenda í þessari stöðu og ég finn það á samþingsmönnum mínum sem ekki eru sammála mér í þessu máli að það er auðvitað hjartahlýtt og gott fólk. Auðvitað vill það vel, ég er ekki í nokkrum vafa um það. Það talar líka þannig þó að við séum auðvitað ekki alveg sammála um veginn og leiðina til að gera þessu fólki sem mestan greiða.

Ég tel að með því að hleypa frumvarpinu í gegn og samþykkja það í þinginu og klára það núna fyrir vorið muni skapast aðstaða í sveitarfélögunum til að hjálpa þeim fjölda fólks sem því miður er enn á framfærslu þeirra. Við munum hjálpa því til sjálfshjálpar. Það er það mikilvægasta sem frumvarpið ber með sér.