145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[18:10]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna því þetta skiptir auðvitað rosalega miklu máli. Þetta er partur af velferðarkerfi okkar, þess vegna þurfum við að hugsa um það hvernig þessum málum er háttað. Þetta er í rauninni síðasta netið sem á að grípa fólk ef það getur ekki einhverra hluta vegna séð fyrir sér sjálft.

Það er alveg rétt, það er núna þannig að sveitarfélögin beita skilyrðingum. En það hafa verið skiptar skoðanir um það hvort í rauninni sé heimilt að gera það. Eins og ég skil málið þá er einmitt með þessu frumvarpi verið að tryggja lagarammann um að það sé hægt. Þar finnst mér einfaldlega verið að nálgast málið á algjörlega röngum forsendum. Það er verið að leggja blessun sína yfir þetta, að það sé rétt að sveitarfélögin hafi verið að beita skilyrðingum og í rauninni bara verið að samræma það, ef svo má að orði komast, milli sveitarfélaga þannig að það sé gert alls staðar eins. Það er að mínu mati samt enn þá jafn röng nálgun til þess að takast á við vanda þessa hóps, hvort sem það er gert með samræmdum hætti eður ei. Ég held nefnilega að það sem samfélagslega er svo mikilvægt og auðvitað ekki síður fyrir einstaklingana sem einhverra hluta vegna hafa dottið út af vinnumarkaði, sé að hjálpa fólki að komast í virkni. Það er það sem mér finnst að stjórnvöld eigi að leggja áherslu á, þ.e. að setja peninga í virkniúrræði til þess að það séu fjölbreyttar (Forseti hringir.) leiðir og fjölbreytt aðstoð í boði fyrir fólk. Ég kem kannski að borgaralaunum í síðara andsvari.